Frábær árangur á einu stærsta knattspyrnumóti ársins
Símamótið er eitt stærsta knattspyrnumót landsins en það eru stelpur í 5. til 8. flokki keppa á mótinu. Keflavík og RKV [sameinað lið Reynis, Keflavíkur og Víðis] sendi metfjölda þátttakenda á mótið í ár, eða samtals 22 lið til keppni.
Í 5. flokki sendi RKV átta lið á mótið en það eru 70 stelpur að æfa í flokknum. RKV var það félag sem var með næstflest lið í mótinu í 5. flokki. Keflavík sendi einnig átta lið í 6. flokki en þar æfa 45 stelpur. Í 7. flokki sendi Keflavík fjögur lið, 30 stelpur æfa í flokknum, og Keflavík sendi tvö lið til keppni í 8. flokki en þetta var fyrsta árið sem 8. flokki er boðið að taka þátt í Símamótinu. 25 stelpur að æfa í 8. flokki kvenna eru en þetta er fyrsta árið sem Keflavík er með sérstakan 8. flokk fyrir stelpur.
Fótboltastelpurnar stóðu sig allar virkilega vel, lögðu sig allar fram og sýndu mikinn dugnað, vinnusemi, góða spilamennsku og frábæra liðsheild. Á fimmtudeginum fyrir mótið var haldin grillveisla fyrir alla keppendur Keflavíkur og RKV til að skapa liðsheild og góða stemmningu. Í ár hétu liðin eftir leikmönnum meistaraflokks kvenna hjá Keflavík í stað hins hefðbundna númerakerfis. Leikmenn meistaraflokks kvenna mættu í grillveisluna ásamt því að stór hluti þeirra mætti á mótið til að hvetja stelpurnar áfram.
RKV – Símamótsmeistarar í 5. flokki
5. flokkur RKV vann sjálfan Símamótstitilinn en liðið hét RKV-Natasha eftir fyrirliða meistaraflokks kvenna hjá Keflavík. RKV-Natasha spilaði í efsta styrkleika mótsins og komst alla leið í úrslitaleikinn eftir frábæra frammistöðu. Í úrslitaleiknum mættu stelpurnar liði Breiðabliks í hörkuleik þar sem RKV vann með einu marki gegn engu. Frábær árangur hjá stelpunum á stærsta fótboltamóti sumarsins.
Stelpurnar sem skipa sigurlið mótsins heita Arney Lára, Freyja Líf, Guðlaug Emma, Hilda Rún, Steinunn Kara, Teresa Rós og Thelma Sif. Þjálfarar 5. flokks kvenna hjá RKV eru Sólrún Sigvaldadóttir og Stefán Lynn Price ásamt Helenu, Jóhönnu og Gabríelu.
Að neðan má sjá myndasafn frá mótinu.