Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frá San Diego til Suðurnesja
Kian leikur sem vinstri bakvörður en hefur einnig leikið sem miðvörður. Stefnan er tekin á Pepsi-deildina en það kom Kian á óvart hve sterkur fótboltinn er hérlendis.
Laugardagur 3. nóvember 2018 kl. 06:00

Frá San Diego til Suðurnesja

- Kian Viðarsson kynnist íslenskum rótum sínum í fótboltanum

Það er óhætt að segja að Kian Viðarsson sé framandi blanda. Faðir hans er Keflvíkingur í húð og hár á meðan móðir hans er frá Gvæjana (Guyana) sem er lítið land á norðurströnd Suður-Ameríku en þar búa um þrjár milljónir íbúar. „Ég grínast stundum með það að við bræður mínir séum meðal mest framandi fólks í heiminum,“ segir þessi nítján ára gamli Kaliforníubúi sem á sér stóra drauma þegar kemur að fótbolta. Hann átti frábært sumar með Þrótti Vogum og stefnir hraðbyr á hæstu hæðir í boltanum.

Snemma fór Kian að fá áhuga á fótbolta. Faðir hans Viðar Vignisson var liðtækur íþróttamaður á sínum tíma, en hann var í yngri landsliðum Íslands í fótbolta, körfubolta og handbolta. Hann hélt sig við körfuboltann þar sem hann lék m.a. þrettán landsleiki með A-landsliðinu. Viðar fór til Bandaríkjanna til þess að spila körfubolta í háskóla á sínum tíma og endaði á því að setjast þar að.

Uppvaxtarárum sínum eyddi Kian í borginni San Diego í Kaliforníuríki Bandaríkjanna. Út frá knattspyrnuáhuga föður síns hefur Kian verið að sparka í bolta frá því að hann var á leikskólaaldri. Hann fékk skólastyrk til þess að leika fótbolta með San Diego-háskólanum en hætti eftir eitt ár til þess að eltast við drauma sína um að verða atvinnumaður í íþróttinni.

Leikmaður ársins hjá Þrótti

Í æsku heimsótti Kian Ísland aðeins einu sinni en fyrir skömmu fór hann að sækja landið heim reglulega þar sem hann æfði fótbolta með liðum á Suðurnesjum. Hann reyndi fyrir sér hjá Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Haukum, ásamt því að hann fór í úrtak fyrir bæði sextán og nítján ára landslið Íslands. Hann hóf ferilinn hjá Reyni Sandgerði þar sem hann stóð sig vel og var kjörinn efnilegastur hjá félaginu. Hann byrjaði að horfa í kringum sig á lið í 1. og 2. deild og endaði hjá Þrótti Vogum eftir stutt stopp hjá Haukum. „Það reyndist mjög góð ákvörðun,“ segir Kian sem kjörinn var leikmaður ársins hjá félaginu af stuðningsmönnum félagsins. Hann hyggst nú vinna í veikleikum sínum sem leikmaður og koma sterkari til leiks næsta tímabil.

Kian býr núna hjá afa sínum og ömmu í Keflavík. „Það var því auðveld ákvörðun að flytja til Íslands, bæði til þess að reyna fyrir mér í fótbolta og til þess að reyna að aðstoða ömmu og afa að öllu leyti,“ en Kian er að rækta íslensku ræturnar og líkar lífið hér mjög vel. „Ég er búinn að vera hér í á annað ár. Það kemur þó enn fyrir að ég stíg út fyrir og fell í stafi yfir fegurðinni, að þetta sé útsýnið sem ég bý við,“ segir Kaliforníubúinn. „Ég sá norðurljósin í fyrsta sinn um daginn. Ég stóð örugglega úti í þrjá klukkutíma og starði á þau,“ bætir hann við.

Heimafólkið er frábært í alla staði að sögn Kian en hann hefur þó fengið skot á sig um að hann verði að læra íslensku, það gangi ekki að vera hálfur Íslendingur og tala ekki tungumálið. „Ég er að læra,“ segir Kian á fínni íslensku en viðurkennir þó að tungumálið sé erfitt viðureignar.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024