Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Frá Njarðlem til Brooklyn
Laugardagur 1. nóvember 2014 kl. 12:28

Frá Njarðlem til Brooklyn

Elvari Má líkar lífið í Stóra eplinu

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson hefur komið sér nokkuð vel fyrir í Brooklyn hverfi New York borgar í Bandaríkjunum. Þar mun hann stunda nám og leika körfubolta næstu fjögur árin við LIU Brooklyn háskólann. „Það er mikil breyting að koma úr svona rólegu umhverfi í brjálaða umferð. Það að búa í miðju Brooklyn hverfi með lestarkerfið fyrir neðan húsið svo það er ekki beint rólegt. En það er mjög gaman að koma í annað umhverfi og fá að upplifa aðra menningu,“ segir bakvörðurinn hæfileikaríki.

Óvinir á vellinum en perluvinur utan vallar

Nú stendur yfir undirbúningstímabil og Elvar æfir af kappi ásamt liðsfélögum sínum. Meðal þeirra er Martin Hermannsson sem lék áður með KR. Þeir voru án efa tveir af bestu íslensku leikmönnum Domino’s deildarinnar í fyrra. Þeir hafa oft leikið gegn hvor öðrum í gegnum tíðina og háð margar rimmur. „Við vorum alltaf mestu óvinir inni á vellinum og það var alltaf hörð barátta á milli okkar svo það er gaman að fá að spila með honum núna,“ segir Elvar en þeim hefur alltaf verið vel til vina og hafa þekkst frá því að þeir voru kornabörn. Feður þeirra, Friðrik Ragnarsson og Hermann Hauksson, spiluðu saman bæði hjá bæði KR og Njarðvík og eru góðir vinir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við erum búnir að vera á löngum varnaræfingum án bolta sem gátu verið mjög lengi að líða, það var mikið um spretti á þeim æfingum. En fyrir skömmu byrjuðu allar æfingar með bolta. Þar höfum við verið að fara í gegnum allt kerfið sem við ætlum að spila í vetur.“ Elvar segir undirbúningstímabilið nokkuð langt en fyrsti leikur er þann 19. nóvember. Þá leikur liðið gegn hinum sterka St. John’s háskóla. „Undirbúningstímabilið er búið að vera miklu lengra en maður er vanur. Fyrsta mánuðinn vorum við bara að lyfta og hlaupa hjá styrktarþjálfara og fórum á nokkrar einstaklingsæfingar með þjálfurum. Við máttum ekkert æfa saman sem lið samkvæmt NCAA reglum svo liðsæfingarnar byrjuðu fyrir skömmu og nú er allur undirbúningur kominn á fullt fyrir fyrsta leik.“

Elvar segir að boltinn í Brooklyn sé afar hraður og mikið um hlaup. Það hentar Elvari einkar vel að hans sögn. Hann segir mikla áherslu vera lagða á varnarleik. Elvar segir að skólinn byrji rólega en hann sinni náminu samviskusamlega. Þeir Elvar og Martin leigja íbúð ásamt þremur öðrum strákum í fimm mínútna fjarlægð frá skólanum, þar eru þeir að koma sér hægt og rólega fyrir.