Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fótboltinn: Töp hjá Suðurnesjaliðunum
Mánudagur 15. júní 2009 kl. 10:32

Fótboltinn: Töp hjá Suðurnesjaliðunum

Suðurnesjaliðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu riðu ekki feitum helsti frá viðureignum sínum í gær þar sem KR lagði Keflavík að velli, 4-1, og Grindavík steinlá sömuleiðis fyrir meisturum FH, 0-3.

 

Heimamenn fengu ekki beint óskabyrjun á Grindavíkurvelli þegar FH komst yfir strax á 9. mínútu. Eftir klaufalega tilburði í öftustu varnarlínu kom Matthías Vilhjálmsson aðvífandi og skoraði auðveldlega úr teignum. Í upphafi seinni hálfleiks kom Atli Viðar Björnsson Hafnfirðingum í 0-2 eftir svipaða uppákomu þar sem Grindvíkingum tókst ekki að hreinsa boltann burt úr teignum og á lokamínútunum gerði Atli Viðar út um leikinn í eitt skipti fyrir öll með öðru marki sínu. Hann fékk boltann dauðafrír á fjærstöng eftir hornspyrnu Tryggva Guðmundssonar og átti ekki í vandræðum með að skila honum í netið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
 

KR-ingar hafa lengi glímt við Keflvíkingagrýluna í efstu deild karla og höfðu ekki unnið drengina úr Bítlabænum frá árinu 2001 þar til í gær. Markaskorarar KR voru þó ekki ókunnugir Keflvíkingum því að Baldur Sigurðsson sem skoraði lokamark leiksins, lék með Keflvík í nokkur ár, Óskar Örn Hauksson sem skoraði þriðja markið, er Njarðvíkingur og Jónas Guðni Sævarsson sem skoraði annað markið, er uppalinn Keflvíkingur og var fyrirliði þeirra áður en hann hélt í Vesturbæinn eftir sumarið 2007.

 

Annars voru KR-ingar betri aðilinn í leiknum og unnu verðskuldaðan sigur. Þeir komust yfir á 34. mín með marki Guðmundar Benediktssonar og þar við sat allt fram að 71. mín þegar miðvörðurinn Alen Sutej jafnaði leikinn eftir hornspyrnu.

 
Það voru svo þeir Jónas, Óskar og Baldur sem kláruðu leikinn á síðustu tíu mínútunum og sigur þeirra staðreynd.
 
Eftir sjö umferðir eru Keflvíkingar í 5.sæti deildarinnar með 11 stig og Grindvík er á botninum með 4.
 

Staðan í deildinni

VF-mynd/Hilmar Bragi