Fótboltinn: Töp hjá Suðurnesjaliðunum
Suðurnesjaliðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu riðu ekki feitum helsti frá viðureignum sínum í gær þar sem KR lagði Keflavík að velli, 4-1, og Grindavík steinlá sömuleiðis fyrir meisturum FH, 0-3.
Heimamenn fengu ekki beint óskabyrjun á Grindavíkurvelli þegar FH komst yfir strax á 9. mínútu. Eftir klaufalega tilburði í öftustu varnarlínu kom Matthías Vilhjálmsson aðvífandi og skoraði auðveldlega úr teignum. Í upphafi seinni hálfleiks kom Atli Viðar Björnsson Hafnfirðingum í 0-2 eftir svipaða uppákomu þar sem Grindvíkingum tókst ekki að hreinsa boltann burt úr teignum og á lokamínútunum gerði Atli Viðar út um leikinn í eitt skipti fyrir öll með öðru marki sínu. Hann fékk boltann dauðafrír á fjærstöng eftir hornspyrnu Tryggva Guðmundssonar og átti ekki í vandræðum með að skila honum í netið.
KR-ingar hafa lengi glímt við Keflvíkingagrýluna í efstu deild karla og höfðu ekki unnið drengina úr Bítlabænum frá árinu 2001 þar til í gær. Markaskorarar KR voru þó ekki ókunnugir Keflvíkingum því að Baldur Sigurðsson sem skoraði lokamark leiksins, lék með Keflvík í nokkur ár, Óskar Örn Hauksson sem skoraði þriðja markið, er Njarðvíkingur og Jónas Guðni Sævarsson sem skoraði annað markið, er uppalinn Keflvíkingur og var fyrirliði þeirra áður en hann hélt í Vesturbæinn eftir sumarið 2007.
Annars voru KR-ingar betri aðilinn í leiknum og unnu verðskuldaðan sigur. Þeir komust yfir á 34. mín með marki Guðmundar Benediktssonar og þar við sat allt fram að 71. mín þegar miðvörðurinn Alen Sutej jafnaði leikinn eftir hornspyrnu.