Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fótboltasumarið 2011 - Kef FC
Fimmtudagur 21. apríl 2011 kl. 12:21

Fótboltasumarið 2011 - Kef FC

Víkurfréttir hita upp fyrir komandi fótboltasumar með því að kynna lið Suðurnesjanna hvert af öðru þar til Íslandsmótið hefst um næstu mánaðamót. Við förum yfir stemninguna í leikmannahópunum og skoðum mannabreytingar og gengi liðana á undirbúningstímabilinu. Fyrsta liðið sem við kynnum til leiks er lið sem e.t.v ekki margir kannast við, en það er utandeildarlið Kef FC. Suðurnesin hafa í gegnum tíðina átt nokkur utandeildarlið en deildin er sú allra fjölmennasta hópíþróttadeild Íslands og mikil stemning í kringum liðin sem þar leika. Auðvitað er alvaran ekki jafnmikil hjá þessum knattspyrnumönnum eins og gefur að skilja heldur eru það leikgleði og félagsskapur sem eru í fyrirrúmi.

Lið Kef FC var stofnað árið 2007 eftir að hugmyndin hafði kviknað ári áður er nokkrir vaskir drengir sem allir höfðu mikinn áhuga á knattspyrnuiðkun höfðu hug á að stunda íþróttina af meiri metnaði og krafti. Upphaflega áttu einungis Keflvíkingar að vera gjaldgengir í hópinn en vinahópurinn var stór og mikill og sú hugmynd því slegin af borðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er óhætt að segja að þeir Davíð Örn Óskarsson, Daníel Bergmann Róbertsson og Teitur Albertsson ásamt fleirum hafi verið stofnendur Kef FC. Hugmyndin kviknaði í góðum samræðum og ákveðið var að þetta skyldi verða að veruleika næsta sumar 2007 en ekki gekk það í gegn þar sem menn voru of seinir að skrá sig til leiks í Utandeildina.


Ýmsar hugmyndir komu fram og um tíma leit út fyrir að félagið skyldi heita FC Jihad. En einhvern veginn varð það ofan á að Kef FC, skyldi félagið heita. Eins og margir vita stendur FC fyrir Football Club en KEF er nafn sem er einfaldlega stytting á Keflavík þar sem flestir leikmenn koma þaðan og höfðu spilað með Keflavík á sínum yngri árum. Nafnið var samþykkt af félagsmönnum á fyrsta fundi félagsins, en sá fundur fór fram á efri hæð 88hússins og á hann voru mættir á annan tug manna. Á fundinum var kosin stjórn og var Teitur Albertsson skipaður formaður og andlit félagsins. Á fundinum var einnig ákveðið hvernig félagslitirnir skyldu vera og úr varð að rauður og svartur skyldu vera einkennislitir félagsins. Félagsmerki var gert af Davíði Erni Óskarssyni og Kef FC formlega orðið til.

Við náðum tali af talsmanni liðsins Garðari Erni Arnarsyni og spurðum hann út í væntingar liðsins í sumar og hvernig undirbúningtímabilinu var háttað hjá Kef FC en Garðar sagði stemninguna gríðarlega góða í hópnum og komin tilhlökkun í mannskapinn fyrir sumrinu.


Hvenig er undibúningstímabilinu háttað?
„Undirbúningstímabilið var þannig háttað hjá Kef FC mönnum að þeir æfðu einu sinni í viku á fimmtudögum í Reykjaneshöllinni. Strákarnir reyndu líka að hafa einn æfingaleik í viku. Liðið lék einnig í ÍR open mótinu sem er á lokastigi núna og vantar liðið eitt stig til þess að komast í undanúrslitin í því móti þegar einn leikur er eftir í riðlinum,“ segir Garðar Örn sem sjálfur leikur sem miðjumaður og kantmaður með liðinu.

Hvernig er séð til þess að menn séu í formi?
„Menn sjá nú bara sjálfir um að koma sér form, sumir eru duglegari en aðrir í ræktinni eins og gengur. Í sumar munum við reyna æfa tvisvar til þrisvar í viku og svo er leikur einu sinni í viku.“

Liðið hefur eins og áður segir verið í óða önn að undirbúa sig fyrir komandi tímabil og gengið hefur verið gott. „Okkur hefur gengið mjög vel að undanförnu, erum búnir að spila tvo æfingaleiki og vinna annan þeirra, svo höfum við spilað þrjá leiki í ÍR open og unnið tvo og gert eitt jafntefli.“

Öll lið á Íslandi hafa gegngið í gegnum mannabreytingar á undirbúningstímabilinu og þar eru utandeildarlið engin undantekning. „Við höfum fengið til baka fjóra sterka leikmenn, Sigurð Gunnarsson markvörð og Karl Magnússon úr Víði. Einnig komu þeir aftur þeir Þorsteinn Þórsson og Vignir Ragnarsson, svo datt Þorsteinn Atli Georgsson sem m.a hefur leikið með Njarðvík og Keflavík inn hjá okkur um mitt síðasta sumar og var það mikill fengur fyrir okkur. Svo hafa nokkrir nýjir komið til okkar þannig að við erum með mjög stóran og góðan hóp, leikmennirnir sem við misstum voru svo varnartröllin Kolbeinn Skagfjörð og Tómas Þór Þorsteinsson, en þau skörð eru nú þegar fyllt.“ segir Garðar Örn.


Háleit markmið fyrir sumarið


Markmið sumarsins hjá Kef-mönnum er að komast í úrslit á ÍR open mótinu til að byrja með. Svo ætla þeir sér að vinna sinn riðil í utandeildinni og komast þannig í úrslitakeppnina, svo er það ekkert annað en sigur í bikarkeppni utandeildarinnar sem kemur til greina að sögn Garðars og augljóst að mikill metnaður er hjá félaginu.

Myndir: Liðsmynd sem tekin var á dögunum. Að neðan er svo Garðar Örn Arnarson talsmaður liðsins.


EJS