Fótboltakrakkar úr Reyni/Víði sópa að sér verðlaunum
Fótboltakrakkar í sameinuðu liði Reynis/Víðis unnu til 9 verðlauna í 11 flokkum á KB-Banka mótinu sem var haldið í Borgarnesi um helgina.
Þar komu saman lið víðs vegar af landinu sem öttu kappi í 4.-7. flokki.
Þeir sem unnu gullverðlaun voru: 7.-C, 6.-B, 6.-A og 5.-C.
Þeir sem lentu í öðru sæti voru 7.-A, 5.-B og 4.-A. Þess ber að geta að tveir síðastnefndu flokkarnir töpuðu úrsliltaleikjum sínum í vítaspyrnukeppni.
Þá lentu 5.-A og 4.-A í þriðja sæti.
Þessi árangur er óhemju góður og ber glöggt vitni um hve vel samstarfið gengur hjá félögunum.
„Þetta gekk alveg rosalega vel og allir voru mjög ánægðir,“ sagði Elvar Grétarsson, yfirþjálfari og bætti því við að þessi árangur sýndi svo sannarlega fram á ágæti þessa fyrirkomulags þrátt fyrir að vissulega hefðu heyrst gagnrýnisraddir þegar allir yngri flokkar félaganna voru sameinaðir fyrir þessa leiktíð.
Myndir: Hilmar Bragi og Ingþór Karlsson