Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Förum fullir sjálfstrausts inn í leikina
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 13. apríl 2024 kl. 06:04

Förum fullir sjálfstrausts inn í leikina

Elías Bjarki Pálsson hefur komið sterkur inn í körfuknattleikslið meistaraflokks Njarðvíkur á þessu tímabili og bíður spenntur eftir að taka þátt í úrslitakeppni Subway-deildarinnar sem hefst í þessari viku.

„Djöfull er ég spenntur,“ segir Elías Bjarki um úrslitakeppnina sem er að hefjast í Subway-deild karla í körfuknattleik. „Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er orðinn frekar spenntur að taka þátt í fyrsta „playoffs“-inu mínu.“

Þetta er fyrsta úrslitakeppnin sem Elías Bjarki tekur þátt í og jafnframt sú síðasta í bili því hann heldur til Bandaríkjanna í nám síðsumars og þá hefst nýr kafli á hans ferli með Augusta-háskólanum í Georgíu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þess vegna verðum við að gera þetta svolítið „worth it“,“ segir hann. Við stefnum að sjálfsögðu á að koma með titilinn heim.

Bræðurnir Kristinn og Elías Pálssynir fyrir leik Vals og Njarðvíkur í Subway-deildinni fyrr á þessu tímabili.

Þannig að þú klárar þetta tímabil og ferð svo út.

„Já, klára tímabilið og svo er það Augusta Georgia maður. Ég er orðinn mjög spenntur fyrir því, það verður skemmtilegt verkefni til að taka fyrir næst. Ég ætla í viðskipta- og markaðsfræði samhliða því að spila körfubolta.“

Hvert stefnirðu svo eftir það?

„Það er mjög erfitt að segja. Auðvitað reynir maður að stefna sem lengst, gera sitt besta og reyna að komast í atvinnumennsku. Það hefur alltaf verið draumurinn minn að komast í atvinnumennskuna, jafnvel A-landsliðið ef maður verður svo heppinn.“

Þið byrjið að spila í vikunni.

„Já, við byrjum á morgun [viðtalið er tekið á þriðjudegi]. Fengum Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð, sem var mjög gott því ég vildi ekki fara á Krókinn aftur. Við erum búnir að tapa þar í annarri umferð tvö ár í röð, þannig að ég var ekki alveg til í það aftur.“

Þórsarar eru samt ekkert allt of auðveldir alltaf.

„Nei en eins og ég segi þá pössum við vel á móti þeim. Við erum með menn sem geta dekkað þeirra menn og förum að sjálfsögðu fullir sjálfstrausts inn í leikina – ef maður gerir það ekki þá tapar maður bara,“ segir þessi efnilegi leikmaður að lokum.

Aftari röð: Kristinn, bróðir Elíasar, Páll Kristinsson, pabbi þeirra, og Elías.
Fyrir framan þá eru þær Pálína Heiða Gunnarsdóttir, mamma bræðranna, og Elsa Lind, systir þeirra.

Ógeðslega ofvirkur

„Sko, ég var ógeðslega ofvirkur sem barn og var bara sendur í allskonar. Ég var að æfa ballett, sund, fótbolta, dans – það var bara allur pakkinn á sínum tíma,“ segir hann hlæjandi. „Það var reynt að keyra krakkann út svo það væri hægt að koma honum í svefninn.“

Svo hefur þú ílengst í körfunni, var það bara eðlilegt val?

„Já, það var eins og það væri ekkert val. Ég væri bara fastur í körfunni – en ég var mjög lélegur í körfu, hafði engan áhuga. Síðan kviknaði áhuginn við að spila á móti Róberti [Sean Birmingham]. Þá fór ég að taka mig á, aðallega til að keppast við hann. Við erum jafnaldrar og spiluðum saman upp yngri flokkana.“

Alltaf tilbúinn að hjálpa. Elías að hjálpa til við að slá niður tjaldhæl. Skömmu síðar var hann búinn að slá sjálfan sig í andlitið með hamrinum.