Flottur sigur hjá Njarðvíkingum á N1 mótinu
Lið 1 hjá 5. flokki Njarðvíkur náði frábærum árangri á N1-pollamótinu í knattspyrnu á Akureyri sem fram fór dagana 3.-6. júlí.
Eftir að liðið hafði unnið fimm af sex leikjum sínum í riðlakeppninni, þá unnu strákarnir 8-1 sigur á Haukum í átta liða úrslitum. Njarðvík sigraði heimamenn í KA 5-0 í undanúrslitum. Í úrslitaleiknum lék Njarðvík gegn ÍBV. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 0-0, þrátt fyrir að Njarðvíkurstrákarnir hafi átt betri og hættulegri færi. Þannig að loknum venjulegum leiktíma þurfi að grípa til vítaspyrnukeppni. Í henni skoruðu Njarðvíkingar úr fjórum vítaspyrnum en Samúel Giovanni Luppi markvörður Njarðvíkur varði fjórðu spyrnu Eyjamanna og þar við sat – úrslitin því 4-3 fyrir Njarðvík.
Mikill fögnuður braust út á meðal Njarðvíkinga sem náði hámarki þegar Stefán Svanberg Harðarson fyrirliði tók á móti sigurlaununum á lokahófi mótsins.
Samúel Giovanni Luppi var síðan valinn af mótshöldunum besti markvörðurinn í brasilísku deildinni.
Samtals voru 28 lið í brasilísku deildinni en þar á meðal voru lið 1 hjá ÍBV, Gróttu, Haukum, Keflavík, Hetti, Skallagrími og Völsung.
Logi Sigurðsson og Samúel Giovanni Luppi.