Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Flottur Keflavíkursigur í fyrsta leik
Jóhann Birnir skorar fyrsta mark sumarsins á 22. mínútu fyrri hálfleiks. VF-mynd: Hilmar Bragi
Sunnudagur 4. maí 2014 kl. 19:00

Flottur Keflavíkursigur í fyrsta leik

„Það er alltaf gott að byrja á sigri í fyrsta leik. Spennustigið var ansi hátt fyrir leikinn en við nýttum það á góðan hátt sem kom vel fram í baráttu og einbeitingu inni á vellinum,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga eftir sigur á Þór í fyrsta leik Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu sem fram fór á Nettó-vellinum í Keflavík.

Það var í stíl við afturhvarf til fortíðar hjá Keflavík að leika í svörtum búningum en þannig voru treyjurnar þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1964 og reyndar lék liðið í svörtum búningum til ársins 1972, - að öldungurinn í Keflavíkurliðinu, Jóhann B. Guðmundsson skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins í ár en það kom á 22. mínútu. Elías Már Ómarsson skaut á markið en markvörður Þórs varði en boltinn hrökk frá honum þar sem Jóhann mætti og setti hann inn í markið.
 
Hörður Sveinsson, framherji Keflvíkinga var á skotskónum í dag og setti tvö mörk. Hann kom heimamönnum í 2-0 með góðu skallamarki en hann fékk sendingu frá Endre Ove Brenne. Skömmu áður hafði nýr markvörður Keflvíkinga, Jonas Sandquist varið meistaralega og hann gerði það aftur í síðari hálfleik.

Keflvíkingar hægðu aðeins á leiknum í upphafi síðari hálfleiks og Kristján þjálfari var ánægður með hvernig þeim tókst að koma í veg fyrir að norðanmenn næðu hættulegum færum og því var það mikill bónus að ná þriðja markinu en það kom úr vítaspyrnu Harðar Sveinssonar. Einar Orri Einarsson var þá felldur inni í teig.
Þórsarar náðu að setja eitt mark í blálokin. Jonas markvörður Keflvíkinga, einn af nýjum leikmönnum liðsins átti mjög góðan leik en átti þátt í því. Sólin blindaði kappann og honum tókst ekki að kýla boltann frá marki heldur fór hann til baka að markinu og Þórsarar ýttu boltanum yfir marklínuna.

Keflvíkingar fögnuðu vel og innilega í leikslok og Kristján þjálfari var mjög sáttur með baráttuna og sigur í fyrsta leik, en hvað segir hann um spárnar sem eru flestar eru á þá leið að Keflavík verði í botnbaráttunni? „Við hlægjum að þeim og þær hafa engin áhrif nema frekar góð. Það hefði verið fínt að vera spáð neðsta sætinu en við eru með okkar markmið fyrir sumarið,“ sagði þjálfarinn.

Næsti leikur Keflvíkinga verður gegn Valsmönnum á Hlíðarenda næsta fimmtudag.
 

Hörður Sveinsson skallaði í mark Þórsara eftir sendingu frá Endre Brenne á 31. mínútu. VF-myndir/PállOrri.
 

Hörður Sveinsson skoraði örugglega úr víti í síðari hálfleik eftir brot á Einari Orra.
 
 


Daníel Gylfason var í byrjunarliði Keflavíkur í dag.





 
 
Gunnar aðstoðarþjálfari og Kristján þjálfari á hliðarlínunni. Kristján var orðinn ansi æstur í síðari hálfleik og lifði sig mikið inn í leikinn.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024