Flott innkoma Söru Rúnar dugði Keflavík ekki gegn Val
Keflavíkurstúlkur náðu ekki að stöðva Valskonur í Domino’s deild kvenna í körfubolta í Valsheimilinu í kvöld. Lokatölur urðu 80-78 og Valur vann sinn 16. leik í röð.
Valskonur byrjuðu mun betur en þegar Sara Rún Hinriksdóttir kom af bekknum í sínum fyrsta leik með Keflavík í vetur, fóru hlutirnir að ganga hjá bítlabæjarliðinu. Þær jöfnuðu og komust yfir en Valskonur skoruðu þrjá þrista í lok þriðja leikhluta og leiddu 44-39 í hálfleik.
Valskonur voru sterkari í seinni hálfleik og Keflvíkingar náðu ekki að ógna þeim nógu mikið þó svo það hafi ekki vantað mikið upp á. Það fór mikið púður í að dekka Helenu Sverrisdóttur og það opnaði betri skot fyrir aðrar Valskonur sem þær nýttu vel.
Sara Rún Hinriksdóttir kom til landsins í morgun og átti gríðarlega flotta innkomu. Hún á örugglega eftir að stimpla sig enn betur inn í liðið en sömuleiðis þær Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Þóranna Kika Hodge Carr en sú síðarnefnda var í hópnum í fyrsta sinn í vetur. Það má því álykta að Keflavíkurliðið eigi eftir að stilla betur strengina þegar kemur að úrslitakeppni. Breiddin hefur án efa styrkst að undanförnu og stuðningsmenn liðsins vonast til að sjá það enn sterkara í næstu leikjum. Það vantaði ekki mikið upp á að það myndi leggja Valsliðið og líklega er Keflavík eina liðið sem getur unnið hið ósigrandi Valslið í síðustu sextán leikjum. Til þess þurfa þó fleiri leikmenn að skila fleiri stigum í sarpinn en bara Brittany og Sara rún sem skoruðu 48 af 68 stigum í þessum leik.
Valur-Keflavík 80-68 (22-13, 22-26, 23-19, 13-10)
Keflavík: Brittanny Dinkins 25/11 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 23/10 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 6/7 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Bryndís Guðmundsdóttir 4/5 fráköst/5 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 3, Birna Valgerður Benónýsdóttir 2, Þóranna Kika Hodge-Carr 1, Embla Kristínardóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Anna Ingunn Svansdóttir 0, Irena Sól Jónsdóttir 0.
Valur: Heather Butler 24/7 fráköst/6 stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir 20/11 fráköst/9 stoðsendingar, Dagbjört Samúelsdóttir 14, Hallveig Jónsdóttir 9, Simona Podesvova 6/7 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 3, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 2, Ásta Júlía Grímsdóttir 2/6 fráköst, Anita Rún Árnadóttir 0, Kristín María Matthíasdóttir 0, Elísabet Thelma 0, Tanja Kristín Árnadóttir 0.