Fjórir heimamenn nefndir í umræðu um þjálfara Keflavíkur
Nöfn fjögurra heimamanna hafa komið upp á borðið varðandi næsta þjálfara Keflavíkur. Rúnar Arnarsson formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur sagði í viðtali við Víkurfréttir í dag að helsti niðurskurðurinn í fjármálum væri í greiðslum til leikmanna og þjálfara og ekki hefði náðst samningur við Gústaf Björnsson sem þjálfari Keflavík á nýliðnu tímabili. Rúnar segir að ekkert vera í gangi í þjálfaramálum þessa dagana. "Við erum að einbeita okkur að fjármálum á öllum okkar fundum og höfum ekki gefið okkur tíma í þjálfaramálin", sagði Rúnar. Meðal nafna sem heyrst hafa nefnd eru þrír fyrrverandi leikmenn, Einar Ásbjörn Ólafsson sem þjálfað hefur með góðum árangri í Njarðvík, Freyr Sverrisson unglingaþjálfari Njarðvíkur og Óli Þór Magnússon sem m.a. hefur þjálfað í Borgarnesi. Einnig hefur nafn Kjartans Mássonar verið nefnt í þessu sambandi. Rúnar sagði að hann hefði heyrt þessi nöfn frá hinum og þessum úti í bæ en staðreyndin væri sú að ekkert hefði verið rætt meira um þjálfarmál eftir að viðræður við Gústaf fóru út um þúfur. "Það er mikið spjallað þessa dagana en þetta er bara spjall".