Fjörheimaráð á landsmóti Samfés
Haldið á Akranesi um liðna helgi.
Allt að þrjú hundruð ungmenni á aldrinum 13 til 15 ára víðs vegar af landinu, ásamt tæplega hundrað starfsmönnum félagsmiðstöðva, heimsóttu Akranes um síðustu helgi þar sem árlegt Landsmót Samfés var haldið. Félagsmiðstöðin Arnardalur var gestgjafi og hafði skipulagt þétta dagskrá alla helgina.
Landsmótið var sett og nýtt ungmennaráð Samfés kosið þar sem hvert félagsmiðstöðvakjördæmi valdi sinn fulltrúa í ráðinu. Á laugardeginum tóku ungmennin þátt í svokölluðum smiðjum. Alls voru um 30 smiðjur í boði þar sem unglingarnir gátu kynnst starfsemi Björgunarfélags Akraness, farið í hópefli eða í tónlistarsmiðju svo dæmi séu tekin.
Hátíðardagskrá var á laugardagskvöldinu þar sem snæddur var kvöldmatur í íþróttarhúsinu áður en haldið var heljarinnar ball í sal Fjölbrautarskólans. Mótinu var svo slitið á sunnudeginum.