Fjórði heimsmeistaratitill Elsu í röð
Kraftlyftingakonan Elsa Pálsdóttir úr Massa varði um helgina heimsmeistaratitil sinn í klassískum kraftlyftingum í Masters-flokki. Þetta er fjórða árið í röð þar sem hún verður bæði heims- og Evrópumeistari.
Keppnin fór fram í Sun City í Suður-Afríku og fékk Elsa gull í hnébeygju og réttstöðulyftu, silfur í bekkpressu og gull í samanlögðu. „Ég gerði heiðarlega tilraun til að slá heimsmetið í hnébeygju en því miður þá fékk ég hana ógilda vegna dýptar,“ segir Elsa í færslu á Facebook. „Ég er ekki par sátt við þann dóm en maður deilir ekki við dómarann.“
Í færslunni segir Elsa afar þakklát fyrir þennan árangur en árið hefur reynst henni erfitt vegna meiðsla.
„Í apríl greindist ég með brjósklos í hálsi og missti mikinn kraft í vinstri hendi sem gerði það að verkum að þyngdirnar fóru niður úr öllu valdi. Þetta hafði töluverð áhrif á æfingarplön og þurfti ég að aðlaga æfingarnar í kringum meiðslin. En með þrautseigju, elju og góðra manna hjálp þá tókst mér að nálgast mínar bestu þyngdir sem dugði til að landa heimsmeistaratitlinum,“ segir þessi kraftakerling sem augljóslega gefst ekki svo auðveldlega upp og þakkaði hún einnig Kristleifi Andréssyni, þjálfara sínum, fyrir þann stuðning sem hann veitti henni.
Elsa heldur ævintýri sínu áfram því að þessu sinni ákvað hún að taka einnig þátt í keppni í búnaði.
Víkurfréttir óskuðu Elsu til hamingju með titilinn og spurðu hana hvað það sé að keppa í búnaði.
„Takk kærlega. Það er að keppa í svokallaðri brók og slopp sem er mjög stífur búnaður sem gefur ekkert eftir og hjálpar manni í lyftunum. Kúnstin þar er að komast niður svo hjálpar búnaðurinn manni upp,“ svaraði Elsa frá Suður-Afríku.
Elsa mun keppa í búnaði þann 11. október og verður gaman að fylgjast með hvort enn einn titillinn komi til með að bætast í safnið hjá þessari .