Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Fjórða tap Reynismanna í röð
Laugardagur 11. ágúst 2012 kl. 10:02

Fjórða tap Reynismanna í röð

Reynismenn töpuðu fjórða leik sínum í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í gær þegar liðið fékk Hamar í heimsókn.

Reynismenn töpuðu fjórða leik sínum í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í gær þegar liðið fékk Hamar í heimsókn.

Sunnanáttin var hvöss og blaut á N1-vellinum þegar Hamar sótti Reyni heim. Sandgerðingarnir voru sterkari í byrjun og voru búnir að fá fjögur góð marktækifæri þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður. Það besta fékk bakvörðurinn Michael Jónsson þegar hann skaut fram hjá opnu marki af stuttu færi eftir að Björn M. Aðalsteinsson í marki Hamars hafði varið vel frá Guðmundi Gísla Gunnarssyni. Á 26. mínútu kom Ingþór Björgvinsson knettinum í mark Reynis, en var réttilega dæmdur rangstæður og markið því ekki gilt. Heimamenn voru sterkari það sem eftir lifði hálfleiks en stórleikur Björns M. Aðalsteinssonar í marki Hamars sá til þess að liðin voru jöfn eftir 45 mínútna leik.

Public deli
Public deli

Reynir hélt áfram að sækja á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Þegar rétt um fimm mínútu voru liðnar af hálfleiknum átti Egill Jóhannsson gott langskot sem Björn varði glæsilega í horn og nokkrum mínútum síðar small bylmingsskot frá Pétri Þór Jaidee í slánni á marki Hamars. Það var síðan þvert gegn gangi leiksins þegar Ingvi Rafn Óskarsson kom gestunum yfir með laglegu skoti eftir góða fyrirgjöf frá Ragnari V. Sigurjónssyni. Litlu munaði að Ingvi Rafn bætti öðru marki við þremur mínútum síðar en skot hans fór þá rétt fram hjá marki Reynismanna.

Heimamenn lögðu ekki árar í bát og héldu áfram að sækja og voru bæði Michael Jónsson og Grétar Ólafur Hjartarson nálægt því að jafna með góðum skotum. Það var síðan á 73. mínútu sem Guðmundur Gísli Gunnarsson kom knettinum í netið hjá Hamarsmönnum og breytti stöðunni í 1-1. Hvergerðingarnir spiluðu fast að venju og skilaði baráttugleðin þeim forystunni að nýju þegar um 10 mínútur voru til leiksloka þegar Abdoulaye Ndiaey skoraði skallamark eftir langa sendingu inn í teig Reynis. Það var sem heimamenn gæfust upp við þetta mótlæti og Hamarsmenn gengu á lagið og bættu við marki stuttu fyrir leikslok þegar Njarðvíkingurinn Aron Már Smárason stangaði fyrirgjöf frá Erni R. Magnússyni í netið.

Ef leikurinn er gerður upp út frá fjölda færa er hægt að segja sigur Hamarsmanna hafi verið ósangjarn en baráttugleði og skynsemi í leikskipulagi skilaði gestunum þremur mikilvægum stigum í botnbaráttunni. Það hefur gengið erfiðlega hjá Reynismönnum í síðustu leikjum og þurfa þeir að finna bæði baráttuviljan og gleðina sem einkenndi liðið í upphafi móts ætli þeir sér að vera með í toppslagnum.

Umfjöllun af heimasíði Reynis.