Fjórða tap Keflavíkur í röð
Keflavíkurstúlkur töpuðu sínum fjórða leik í röð í kvöld þegar þær sóttu Stúdínur heim í 1. deild kvenna í körfuknattleik. Lokatölur voru 64-48 fyrir ÍS og er morgunljóst að Keflvíkingar þurfa liðsstyrk til að vinna sig upp úr þessum vandræðum, hvort sem Reshea Bristol komi aftur eða Keflvíkingar finni varanlegan staðgengil.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn vel og voru stigi yfir eftir fyrsta leikhluta, 17-18, en ÍS rúlluðu yfir gestina fram að hálfleik þar sem sóknarleikur Keflavíkur gekk ekki nokkurn veginn upp. Staðan í hálfleik var 35-26 og í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum. Stúdínur sigldu lengra og lenga framúr og unnu að lokum öruggan sigur.
Bryndís Guðmundsdóttir var yfirburðamanneskja í liði Keflavíkur þar sem húm skoraði 14 stig og tók heil 16 fráköst. Birna Valgarðsdóttir var með 12 stig líkt og Svava Ósk Stefánsdóttir, en aðrir voru með mun minna.
Hjá ÍS var Signý Hermannsdóttir með 16 stig og 20 fráköst og Stella Kristjánsdóttir var með 14 stig.
Keflavík er enn, þrátt fyrir allt, með fjögurra stiga forystu á Grindavík í efsta sæti 1. deildarinnar. Næsti leikur þeirra er gegn Njarðvík á miðvikudaginn.