Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjölnir lagði Njarðvík í bikarúrslitum
Laugardagur 10. mars 2007 kl. 19:57

Fjölnir lagði Njarðvík í bikarúrslitum

Unglingaflokkur Fjölnis er bikarmeistari eftir frækinn 73-90 sigur á Njarðvík í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Þorsteinn Sverrisson, Fjölni, var valinn besti maður leiksins með 24 stig og 11 fráköst. Jafnt var á með liðunum en þegar líða tók á fjórða leikhluta stungu Fjölnismenn af.

 

Rúnar Ingi Erlingsson kom Njarðvíkingum í 2-0 og eftir það skiptust liðin á því að skora. Kristján Sigurðsson kom Njarðvíkingum í 17-16 með þriggja stiga skoti þegar þrjár sekúndur voru til loka fyrsta leikhluta og því leiddu Njarðvíkingar.

 

Áfram skiptust liðin á því að hafa forystuna en rólegt var yfir leiknum og liðin ekki að hitta sérlega vel úr skotum sínum. Þeir Jóhann Árni Ólafsson og Kristján Sigurðsson voru að draga vagninn fyrir Njarðvíkinga í fyrri hálfleik en Fjölnismenn leiddu engu að síður 32-34 í hálfleik og léku á breiðum hóp í dag á meðan Njarðvíkingar léku aðeins á sex mönnum.

 

Í þriðja leikhluta tóku Fjölnismenn góða rispu og breyttu stöðunni í 45-54 sér í vil og Njarðvíkingar eyddu restinni af leiknum að reyna að vinna upp þennan mun. Jóhann Árni frákastaði vel fyrir Njarðvíkinga í dag en hann var með 22 fráköst en villuvandræðin voru að hrjá þá grænu og þurfti Rúnar Ingi Erlingsson frá að víkja með fimm villur þegar um 5 mínútur voru til leiksloka.

 

Fjölnismenn reyndust svo mun sterkari aðilinn í lokin og skoruðu margar auðveldar körfur og lokatölur því 73-90 eins og áður greinir.

 

Liðsheildin skóp þennan Fjölnissigur og margir þeirra leikmenn sem stóðu sig vel í dag en þeirra sterkastur var Þorsteinn Sverrisson með 24 stig, 11 fráköst og góða skotnýtingu.

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024