Fjölmargir titlar á Suðurnesin í lokahófi KKÍ
Suðurnesjamenn fengu fjöldamörg verðlaun á lokahófi KKÍ sem fór fram í Stapa í gærkvöldi.
Fyrst má nefna að Bryndís Guðmundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir voru valdar í lið ársins, en þær eru báðar úr Keflavík. Bryndís var einnig valin bestu ungi leikmaðurinn í 1. deild kvenna.
Í karlaliðinu eru tveir Suðurnesjamenn, Magnús Gunnarsson, Keflavík, og Friðrik Stefánsson úr Njarðvík. Friðrik Bætti um betur og var með flest varin skot allra í Intersport-deildinni og var valinn besti varnarmaður deildarinnar fyrir vikið. Nick Bradford úr Keflavík var með flesta stolna bolta í Intersport-deildinni.
Reshea Bristol, sem lék með kvennaliði Keflavíkur lungann úr tímabilinu, var valin besti erlendi leikmaður kvenna, en hún var efst í þremur tölfræðiþáttum, 3ja stiga nýtingu, stoðsendingum og stolnum boltum.
Þá var Sólveig Gunnlaugsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, valin prúðasti leikmaðurinn.
Að lokum má þess geta að Sigmundur Herbertsson úr Njarðvík var valinn besti dómarinn.
VF-myndir/Héðinn Eiríksson