Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjölmargir nýta sér Bikarpallinn
Pallurinn er notaður af fjölmörgum sem leggja stund á heilsueflingu í bænum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 5. maí 2021 kl. 14:31

Fjölmargir nýta sér Bikarpallinn

Knattspyrnudeild Keflavíkur réðist í það verkefni nú í vetur að byggja veglegan pall við vesturenda stúku Nettóvallarins. Pallurinn var formlega vígður á dögunum þegar KSÍ loks afhenti Keflvíkingum, Lengjudeildarmeisturum karla í knattspyrnu 2020, verðlaunagripina fyrir sigurinn í deildinni. Við það tilefni sagði Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildarinna, að héðan í frá yrði pallurinn nefndur Bikarpallurinn.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar tók að sér að byggja pallinn í sjálfboðavinnu og naut við það stuðnings frá Húsamiðjunni, EJS verktökum og Grjótgörðum. Sigurður Garðarsson segir að stjórnin hafi litið á pallasmíðina sem gott samfélagsverkefni en það eru ekki einungis knattspyrnuáhorfendur sem njóta góðs af þessu framtaki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við urðum fljótt varir við það að pallurinn var ekki aðeins fyrir fótboltaáhorfendur, heldur einnig trimmarana sem nota göngubrautina í kringum völlinn,“ segir Sigurður og tiltekur jafnframt að pallurinn hafi alfarið risið með framlagi knattspyrnudeildar Keflavíkur. Hann sagðist einnig vera búinn að senda erindi til Reykjanesbæjar til að reyna að fá bæinn í lið með sér með hellulögn og frágang í kringum pallinn.

Hlaupabrautin í kringum knattspyrnuvöll Keflvíkinga er mikið notuð af göngu- og hlaupafólki allt árið um kring og því er nokkuð ljóst að fjölmargir njóta góðs af þessu framtaki knattspyrnudeildarinnar og njóta betri aðstöðu til að stunda sína útivist.

Keflvíkingar fengu tækifæri til að lyfta sigurverðlaunum síðasta árs skömmu áður en Íslandsmótið hófst í ár.

Keflavíkingar eru með karla- og kvennalið í Pepsi Max-deildunum. Í karlaflokki tapaði Keflavík fyrir Víkingi í fyrstu umferðinni en fyrsti heimaleikurinn er á sunnudag gegn Stjörnunni. Kvennaliðið leikur sinn fyrsta leik í dag þegar Keflavík tekur á móti Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 19:15.