Fjöldi færa í markalausu jafntefli
Það var heldur betur boðið upp á fjörugan leik þegar Keflavík og KR áttust við í Bestu deild karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Liðin skiptust á að stýra leiknum, KR-ingar beittari í fyrri hálfleik en Keflvíkingar settu mikla pressu á gestina í þeim síðari.
Gestirnir byrjuðu leikinn betur og snemma í fyrri hálfleik þurfti Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, að taka á honum stóra sínum þegar hann sýndi magnaða takta og varði glæsilega þrumuskot frá sóknarmanni KR af stuttu færi. KR-ingar gerðust nokkrum sinnum ágengir í fyrri hálfeik en Sindri sá til þess að inn færi boltinn ekki.
Keflvíkingar unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og fóru að sýna klærnar eftir því sem leið á, sem fyrr voru skyndisóknir þeirra beittar en færin létu standa á sér.
Í seinni hálfeik færðist meiri hiti í leikinn. Harðar tæklingar, enn ákafari sóknarleikur og ekkert gefið eftir í skallaeinvígjum. KR var nær því að skora en áfram sá Sindri Kristinn til þess að ekkert yrði úr því. Keflvíkingar fóru að ýta frá sér og setja verulega pressu á gestina eftir því sem leið á hálfleikinn og var KR nánast í nauðvörn síðasta korterið af leiknum. Markvörður KR varði einnig vel það sem kom á markið og að lokum tókst hvorugu liði að skora.
Þetta var þrusuleikur sem hefði getað fallið með báðum liðum en miðað við hvernig hann þróaðist naga Keflvíkingar sig örugglega í handarbökin fyrir að hafa ekki náð að klára hann með einu marki eða svo.
Með þessum úrslitum eru Keflvíkingar enn í sjöunda sæti Bestu deildar karla en Fram jafnaði þá að stigum með sigri á Leikni, Keflavík er með einu marki betra markahlutfall.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og má sjá fleiri myndir í myndasafni neðst á síðunni.