Fjögurra marka sigur á Fram
Leikur Keflavíkur og Fram í síðustu umferð deildarkeppni Bestu deildar karla í knattspyrnu var með ævintýralegra móti. Alls voru skoruð tólf mörk í leiknum og átti Keflavík átta þeirra. Lokatölur 4:8 í Úlfarsdal á heimavelli Fram en bæði lið áttu möguleika á að enda í efri hluta deildarkeppninnar en þurftu þá að treysta á að FH tækist að vinna Stjörnuna. Það gekk hins vegar ekki eftir, Stjarnan vann FH 2:1 og Keflvíkingar enda í sjöunda sæti.
Það var Joey Gibbs sem opnaði fyrir markasúpuna með marki á níundu mínútu. Fram sneri taflinu sér í vil með mörkum á þrettándu og sautjándu mínútu.
Fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon jafnaði fyrir Keflavík með skalla marki eftir hornspyrnu Adams Ægis Pálssonar (35') og Kian Williams kom Keflvíkingum aftur í forystu mínútu síðar aftur eftir góða fyrirgöf frá Adam Ægi (36').
Hamaganginum í fyrri hálfleik var þó hvergi nærri lokið en Framarar jöfnuðu enn á ný á 40. mínútu en Dagur Ingi Valsson sá til þess að Keflavík færi með forystu inn í hálfleikinn þegar hann skoraði eftir horn (42'). Staðan 3:4 fyrir Keflavík í hálfleik.
Ernir Bjarnason kom Keflavík í tveggja marka forystu eftir stórgóða fyrirgjöf Rúnars Þórs Sigurgeirssonar sem Gibbs skallaði en markvörður Fram varði vel, boltinn féll hins vegar fyrir fætur Ernis sem skilaði honum í autt markið (57').
Kian Williams skoraði annað mark sitt og sjötta mark Keflavíkur (75') áður en Fram náði að svara með sínu fjórða marki (79'). Nafnarnir Adam Árni Róbertsson (89') og Adam Ægir Pálsson (90'+4) skoruðu svo sitt markið hvor og tryggðu þar með stórsigur Keflavíkur á Fram.