Fjárfest í framtíðinni – samið í Grindavík
- Afrekshugsun og skuldbinding að neyta ekki vímuefna
Í lok janúar voru gerðir afrekssamningar við leikmenn úr 3.flokki karla – og kvenna í Grindavík.
Á heimasíðu UMFG segir að afrekssamningurinn við knattspyrnudeild UMFG feli í sér að leikmönnum séu kennd þau grunngilfi sem koma til með að hjálpa þeim í lífinu. Þar að auki verður boðið upp á aukaæfingar, fræðslu, hvatningu og annað sem hjálpar þeim að bæta sig í framtíðinni. Á móti skuldbinda krakkarnir sig til þess að tileinka sér gott líferni og að neyta ekki áfengis, tóbaks og annarra vímuefna.
Jónas Þórhallsson formaður og Grétar Valur Schmidt formaður unglingaráðs skrifuðu undir samningana fyrir hönd UMFG en foreldrar og forráðamenn leikmanna voru einnig viðstaddir þessa athöfn. Óli Stefán Floventsson er þjálfari 3. fl. karla og þjálfari kvennaliðsins er Ægir Viktorsson.