Finnst vænna um heimabæinn þegar ég eldist
- Keflvíkingurinn Árelía Eydís las úr skáldsögu sinni
Árelía Eydís Guðmundsdóttir er brottfluttur Keflvíkingur, fræðikona, fyrirlesari og kennari sem hefur látið til sín taka á þeim vettvangi. Hún mætti til gamla heimabæjarins nýlega og las upp úr fyrstu skáldsögu sinni, Tapað fundið, á bókakonfekti í Bókasafni Reykjanesbæjar.
„Þetta gat ekki verið yndislegra á leið minni hingað, nýfallinn snjór og jólaljós þegar ég keyrði inn í bæinn. Það var líka skemmtilegt að ég var að lesa í fyrsta skipti út bókinni sem kom út fyrr á árinu,“ sagði Eydís eins og hún er kölluð af flestum.
Hún hefur á sínum vettvangi kennslu og fræða hvatt fólk til að fara út úr sínum þægindahring, það geti gefið fólki mikið og nú var hún á þeim tímamótum. „Mér fannst þetta spennandi tækifæri en þó ég hafi gefið út bækur þá hef ég ekki gefið út skáldsögu. Kann það ekki og er því alger byrjandi í þeim flokki. En ég er svolítið að ögra sjálfri mér og var satt að segja alveg skíthrædd þegar bókin kom út. Var hissa á því sjálf hvað ég var stressuð út af útgáfu bókarinnar.“
Bókin fjallar um lögfræðinginn Höllu Bryndísi sem fær í hendurnar ranga ferðatösku þegar hún lendir í London og mikilvægir fundir framundan. Hún situr uppi með allt annan fataskáp en sinn eigin og samhliða því sem fylgst er með Höllu Bryndísi leita út fyrir þægindaramma sinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Eydís segir að bókin hafi verið nokkurn tíma að fæðast en hún sé skorpukona og vinni þannig. „Ég fór í burtu og lokaði mig af því það er erill í kringum mig, stór fjölskylda og fjör en þetta gekk. Ég er samt þannig gerð að ég vil láta lesa yfir aftur og aftur auk þess sem ég er ekki mjög nákvæm. Þarf því aðstoð í því og helst sem mesta. Ég var með frábæran ritstjóra og lærði mikið af því.“
Eydís fékk góðar viðtökur við upplesturinn í bókasafninu en aðspurð segir hún heimahagana sér mjög kæra. „Ég er í daglegu sambandi við Keflavík enda búa foreldarar mínir þar. Ég fór á 35 ára fermingarafmæli í vor og þá fann ég að þegar maður verður eldri finnst manni vænna um heimabæinn og vera hluti af því samfélagi.“
En verður þetta fyrsta skáldsagan af fleirum?
„Já, líklega. Það er að fæðast hugmynd að þeirri næstu og ég bíð eftir að komast í það verkefni. Mér finnst þetta gaman. Svolítið frí frá fræðikonunni,“ sagði Árelía Eydís.
Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Árelíu.