Finnar höfðu betur í Höllinni
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik laut í lægra haldi gegn Finnum 86-93 í B-deild Evrópukeppninnar í gærkvöldi. Njarðvíkingurinn Brenton Birmingham var stigahæstur íslenska liðsins með 20 stig.
Leikur íslenska liðsins fór vel af stað drifinn áfram af Hlyn Bæringssyni og Loga Gunnarssyni. Fannar Ólafsson og Páll Axel Vilbergsson áttu svo flottar innkomur í leikinn og hafði íslenska liðið yfir í hálfleik 57-46 þar sem hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru ratið rétta leið.
Í þriðja leikhluta hrundi svo leikur íslenska liðsins sem hélt áfram að reyna að skjóta fyrir utan þriggja stiga línuna með miður góðum árangri. Finnar nýttu þriðja leikhluta vel, spiluðu sterka vörn og jöfnuðu leikinn og komust svo yfir fyrir fjórða leikhluta.
Að endingu reyndust Finnar sterkari og höfðu 86-93 sigur eins og áður greinir. Brenton gerði 20 stig, Páll Axel 17 og þeir Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson gerðu sín 13 stigin hvor en Hlynur tók auk þess 15 fráköst í leiknum.
Íslenska liðið hitti aðeins úr 17 af 28 vítaskotum í leiknum og þá var Hlynur nánast einn í frákastabaráttunni en íslenska liðið tók alls 36 fráköst í leiknum og Hlynur þar af 15.
Næsti leikur Íslendinga er gegn sterku liði Georgíu og fer leikurinn fram í Tiblisi á laugardag.