Íþróttir

Þriðjudagur 15. júlí 2003 kl. 22:00

Fimmti sigur Grindvíkinga í röð

Einn leikur var á dagskrá í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld. Grindavík sigraði Val 2-1 á Hlíðarenda en þetta var fimmti sigur Grindvíkinga í röð í deildinni. Grindvíkingar misstu mann útaf á 46. mínútu en þrátt fyrir það að vera manni færri höfðu þeir sigur í hörkuleik.Óli Stefán Flóventsson kom Grindavík yfir á 25. mínútu eftir góða sendingu frá Paul McShane og þannig var staðan í hálfleik. Ray Jónsson fékk rauða spjaldið á 46. mínútu fyrir brot á Sigurði Þorsteinssyni en flestum ber saman að það hafi verið afar hæpinn dómur hjá Ólafi Ragnarssyni, dómara leiksins. Paul McShane kom Grindvíkingum yfir í 2-0 á 70. mínútu og þá virtist þetta vera komið hjá þeim gulklæddu en Ármann Smári Björnsson leikmaður Vals náði að minnka muninn á 80. mínútu en lengra komust þeir ekki. Ármann Smári átti reyndar skalla í slánna í lokamínútum leiksins en inn vildi boltinn ekki. Bæði Þorlákur Árnason og Bjarni Jóhannsson þjálfarar liðanna voru sammála eftir leikinn að rauða spjaldið hafi verið bull og það að Valsmenn hefðu átt að fá vítaspyrnu mínútu síðar.

Þetta var fimmti sigur Grindvíkinga í röð og þeir eru komnir í þriðja sæti deildarinnar, með 18 stig eins og Þróttur sem er í öðru sæti deildarinnar.

Frétt af Sport.is
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024