Fimm fræknu fóru frægðarför til Skotlands
Kiddý setti nýtt brautarmet
Liðið 5 fræknar+ frá líkamsræktarstöðinni Lífsstíl tóku þátt í Maxifit einstaklingsþrekkeppni í Skotlandi um s.l. helgi Keppnin inniheldur átta þrek- og þolgreinar sem farið er í gegnum í kapp við tímann. Keppt var í þremur flokkum, byrjenda, miðflokki og afreksflokki. Liðið skipa Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, Þuríður Þorkelsdóttir, Ásta Katrín Helgadóttir, Árdís Gísladóttir, Elsa Pálsdóttir, Sigurrós Helgadóttir og Laufey Gísladóttir.
Árangurinn var mjög góður þar sem Kristjana Hildur Gunnarsdóttir (Kiddý) sigraði í afreksflokki, bæði í opnum flokki ásamt því að sigra sinn aldursflokk (39+). Einnig setti hún nýtt brautarmet. Keppnin var æsispennandi fram á lokamínútu, sigurvegarinn frá því í fyrra varð að játa sig sigraða, en hún kom í mark 4 sek. á eftir Kristjönu. Árdís Gísladóttir sigraði aldursflokk 50+ í afreksflokki og Ásta Katrín Helgadóttir sigraði flokk 50+ í miðflokki. Liðið 5 fræknar+ tekur þátt í Þrekmótaröðinni hér á Íslandi og er næsta keppni Bootcampkeppni sem haldin er þann 1. júní í Mosfellsbæ.
Fimm fræknar vilja nota tækifærið og þakka eftirtöldum fyrirtækjum fyrir stuðninginn en það eru Bílasprautun Magga Jóns, Íslandsbanki, Lífsstíll, Nýsprautun, Plastgerð Suðurnesja, Skólamatur, Toyota, Þak Tak, og öllum þeim áheitum og stuðningi sem við fengum frá einstaklingum.