Fimleikar fyrir fullorðna
Í upphafi þessa árs bauð Fimleikadeild Keflavíkur upp á fimleikanámskeið fyrir fullorðna og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Margir þjálfarar koma að þjálfun hópsins en Vivieka Grip nýr sænskur þjálfari hjá félaginu hefur stýrt tímunum og segir Elín Íslaug Kristjánsdóttir yfirþjálfari í áhaldafimleikum hjá FK að það hafi komið á óvart hve þátttakan er mikil og hversu miklum framförum iðkendur hópsins hafi tekið.
,,Þetta er eitthvað sem er orðið mjög vinsælt úti í heimi og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Þá hafa þau hjá Gerplu, stjörnunni og fleirum einnig boðið upp á fimleika fyrir fullorðna,” sagði Elín í samtali við Víkurfréttir en hópurinn er einnig opinn karlmönnum. ,,Við tókum bara inn konur í byrjun, á meðan við vorum að prófa okkur áfram en skorum á alla hressa karlmenn að mæta með okkur.”
Upphaflega var um sex vikna námskeið að ræða en vegna vinsælda er fimleikafjörið orðið fastur hluti af starfi deildarinnar. ,,Þær elstu sem hingað til hafa verið hjá
okkur eru fæddar 1960 en við erum með 18 ára aldurslágmark. Þetta er kátur og léttur hópur sem hefur gaman af því að gera eitthvað skemmtilegt og það hefur komið okkur á óvart hvað fólk hefur náð miklum árangri,” sagði Elín en nánar er hægt að kynna sér fimleika fyrir fullorðna á www.keflavik.is
VF-Mynd/ [email protected]