Fimleikadrengir Keflavíkur unnu fyrsta bikarmeistaratitil félagsins
Drengjalið Keflavíkur í áhaldafimleikum tryggði sér fyrr í dag bikarmeistaratitil í 5. þrepi en mótið fór fram í aðstöðu fimleikadeildar Ármanns í Laugardal.
Nýkrýndir bikarmeistar eru á aldrinum 9-14 ára og heita Kristófer Máni Önundarson, Magnús Orri Arnarsson, Sæþór Kristjánsson, Andrés Emil Guðnýjarson, Heiðar Geir Hallsson og Magnús Már Garðarsson. Þjálfari þeirra er Vilhjálmur Ólafsson.
Þessi árangur er stórglæsilegur og sérstaklega í ljósi þess hversu stutta sögu drengjafimleikar eiga sér hjá deildinni.
Þessi titill er fyrsti bikarmeistartitill í sögu fimleikadeildar Keflavíkur, bæði í karla og kvennaflokki.
Nánar verður fjallað um fimleika í næsta tölublaði Víkurfrétta en fleiri lið frá Keflavík voru í eldlínunni og náðist góður árangur á fleiri vígstöðum.