FH-ingar gerðu nóg til taka öll þrjú stigin
Sóknarleikur Keflvíkinga bitlaus á síðasta þriðjungi vallarins
Keflvíkingar töpuðu öðrum leik sínum í röð í Pepsí deild karla þegar FH kom og tók öll þrjú stigin á Nettóvellinum í kvöld. Lokatölur urðu 1-2 fyrir gestina frá Hafnarfirði.
Keflvíkingar gerðu 5 breytingar á liði sínu frá því í síðasta leik en fyrr um daginn höfðu Keflvíkingar leyst þá Richard Arends og Kiko Insa undan samningi við liðið. Paul Bignet kom inn í miðvörðinn og þá voru þeir Farid Zato og Chuck báðir í byrjunarliði heimamanna.
Hafnfirðingar stjórnuðu gangi leiksins framan af og voru stóískir í sínum aðgerðum í fyrri hálfleik. Ekki var mikið um flugelda á fyrsta hálftíma leiksins þar sem að það dró helst til tíðinda að Hafnfirðingar áttu tvö ágæt skot að marki heimamanna sem að sigldu bæði framhjá. Á 18. mínútu leiksins varð Sigurbergur Elísson fyrir meiðslum þegar hann lenti í samstuði og þurfti aðhlynningu en snéri aftur á völlinn skömmu síðar. Eitthvað hefur samstuðið setið í Sigurbergi sem að þurfti að yfirgefa völlinn 10 mínútum síðar og í hans stað kom Norðmaðurinn Martin Hummervoll sem er á láni út tímabilið.
Það var svo á 32. mínútu sem að FH-ingar brutu ísinn og var þar að verki Emil Pálsson sem skallaði inn sendingu Jeremy Serwy sem að hafði gert allt hárrétt og lítið eftir fyrir Emil að gera nema stanga boltann yfir línuna. Keflvíkingar höfðu verið að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn en FH-ingar sýndu að þeir þurfa ekki nema eina góða sókn til að skila marki. Þeir voru svo nálægt því að bæta við öðru marki nokkrum mínútum síðar en Atli Guðnason náði ekki til boltans eftir að hann hafði borist inn í markteig heimamanna.
Keflvíkingar urðu svo fyrir öðru áfalli þegar Haraldur Freyr Guðmundsson þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla á 37. mínútu og Keflavík neyddist því til að nota sína aðra skiptingu í leiknum. Í hans stað kom Samuel Jimenez Hernandez sem að kom nokkuð sprækur inn af bekknum og átti hann heiðurinn að jöfnunarmarki Keflvíkinga sem að kom mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks en sending Hernandez rataði fyrir fætur fyrirliða FH-inga, Davíðs Þórs Viðarssonar, sem að ætlaði sér að hreinsa frá marki en hitti boltann ekki betur en svo að hann sigldi framhjá Róberti Óskarssyni í marki FH og höfðu heimamenn því jafnað fyrir hálfleik. Þetta var jafnframt fyrsta sókn Keflvíkinga í hálfleiknum sem að endaði með skoti, þó ekki þeirra eigin.
Liðin gengu því til búningsherbergja í stöðunni 1-1 og ekki að sjá að 19 stiga munur væri á milli þessara liða í deildinni en Keflvíkingar gerðu vel í því að loka á sóknarðaðgerðir gestanna á síðasta þriðjungi vallarins. Aftur á móti var lítið markvert að gerast á sóknarþriðjungi Keflvíkinga og fyrir utan markið hafði lítið sem ekkert gerst þar í fyrri hálfleik.
Keflvíkingar hófu síðari hálfleikinn vel og stjórnuðu leiknum af miklu öryggi fyrstu 15 mínútur leiksins. Liðið hélt boltanum ágætlega og virkaði nokkuð öryggt varnarlega. Það var þó sama sagan sóknarmegin, Keflvíkingum vantaði allan brodd í sóknarleikinn og þegar heimamenn fengu nokkrar flottir sóknir upp hægri kantinn náðu þeir því miður ekki að skila boltanum inn í teiginn eða valda varnarlínu FH-inga neinum teljandi usla. T.a.m. endaði engin þessara sókna með skoti á markið og verður að taka fram þá staðreynd að lið sem ekki skora mörk vinna ekki leiki.
Keflvíkingum var refsað fyrir það að nýta ekki sóknir sínar og var það varamaðurinn Atli Viðar Björnsson sem að skoraði sigurmarkið fyrir gestina eftir sofandahátt í öftustu línu heimamanna á 75. mínútu eftir að hafa enn einu sinni verið réttur maður á réttum stað en þessi magnaði sóknarmaður hefur leikið Keflvíkinga grátt í gegnum tíðina og nánast viðeigandi að sigurmark leiksins hafi komið frá honum.
FH-ingar voru líklegri það sem eftir lifði leiks en allt kom fyrir ekki og Keflvíkingar þurftu að sætta sig við þrjú glötuð stig í baráttunni um sæti í deildi þeirra bestu. Staðan heldur áfram að versna í þeirri baráttu þar sem að 27 stig eru eftir í pottinum en 6 stig og 10 mörk skilja Keflavík frá fallsvæðinu á þessum tímapunkti.
Keflvíkingar fá engu að síður hrós fyrir sinn leik í kvöld. Liðið var skipulagt og virkaði nokkuð sprækt. Tilkoma Farid Zato fyrir framan öftustu línu gefur uppspilinu aukna breidd þar sem að hann er óhræddur við að bera boltann upp völlinn og styrkur hans er óumdeilanlegur, en Zato var kosinn maður leiksins af stuðningsmönnum Keflavíkur.
Farid Zato var besti maður Keflvíkinga í kvöld
Engu að síður verður að lasta sóknarleik Keflvíkinga á síðasta þriðjungi vallarins. Samuel Jimenez Hernandez, sem að kom sprækur inn af bekknum, var nokkrum kominn í þá stöðu að þræða úrslitasendingu í góðum sóknum heimamanna en ákvörðunartaka hans var mjög slök í þeim efnum í öll skiptin í síðari hálfleik. Vissulega tekur tíma að læra inn á nýja menn í fremstu víglínu, en úr stúkunni fannst manni liðið eiga að geta gert betur fram á við. Sóknarleikurinn er bitlaus og til marks um það er hægt að benda á að Róbert í marki FH hafði ekkert að gera allan leikinn fyrir utan að sækja boltann úr eigin neti eftir sjálfsmarkið. Það var ekki nóg í dag.
Staða Keflvíkinga er því óbreytt, liðið situr á botninum og mætir Breiðablik í næstu umferð þann 5. ágúst n.k. á Kópavogsvelli