Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ferillinn gæti verið á enda
Ómar á æfingu með Njarðvíkingum.
Laugardagur 8. mars 2014 kl. 10:09

Ferillinn gæti verið á enda

- Ómar Jóhannsson um meiðslin og upphafið á nýjum ferli

Markvörðurinn Ómar Jóhannsson var á dögunum ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks Njarðvíkinga í 2. deild karla í knattspyrnu. Ómar sem gert hefur garðinn frægan sem markvörður Keflvíkinga um árabil mun einnig sjá um markmannsþjálfun liðsins. Ómar dró sig í hlé vegna meiðsla á dögunum en hann hefur verið aðal markvörður Keflvíkinga síðan árið 2002 og leikið 198 leiki fyrir félagið. Ferill Ómars sem leikmanns er hugsanlega í hættu en hann er ekki tilbúinn að gefa hann upp á bátinn alveg strax.

Ómar sem er nýlega orðinn 33 ára gamall, hafði hug á því að þjálfa og hafði verið í sambandi við fyrrum liðsfélaga sinn hjá Keflavík, Guðmund Steinarsson, áður en meiðslin komu upp. „Gummi hafði rætt við mig um að koma og aðstoða við markmannsþjálfunina. Ég hafði ekki tíma þá en þegar að ljóst var að ég myndi ekki spila í bráð þá kom þetta aftur til tals.“ Ómar hafði áætlanir um að fara í þjálfun seinna meir og þá sérstaklega þjálfun markmanna. Þessi atburðarás hefur hrundið þeirri áætlun í gang fyrr en ætlað var. „Þegar Gummi spurði mig svo hvort ég gæti ekki hugsað mér að vera aðstoðarþjálfari hjá Njarðvík þá fannst mér það hljóma nokkuð vel,“ en Ómar telur sig hafa mikið fram að færa á þeim vettvangi enda reynslumikill leikmaður.

Ekki verið 100% heill í lengri tíma

Ómar hefur í gegnum tíðina glímt við ýmiss meiðsli og ekki náð nema einu tímabili þar sem hann hefur verið 100% síðan árið 2007, að eigin sögn, en það var tímabilið 2011, en þá lék hann alla leiki í deild og bikar. Nú er það öxlin sem er að angra markmanninn en hún hefur verið til leiðinda síðan árið 2008 að sögn Ómars. Hann var tæpur eftir síðasta tímabil í Pepsi-deildinni og það var rætt um að hann færi í aðgerð þá. „Mér leið vel í öxlinni eftir sumarið og því virtist engin ástæða til þess að fara í aðgerð. Hún var bæði áhættusöm og það tekur langan tíma að jafna sig.“ Því var ákveðið að Ómar héldi sig við að styrkja öxlina og gekk það vel. Ómar hóf að æfa með liðinu í janúar og gekk það framan af mjög vel. Svo fer hann úr axlarlið á æfingu þegar hann er að skutla sér eftir bolta. „Það var dálítið áfall. Ef það var eitthvað sem átti að halda þá var það öxlin sem ég var búinn að styrkja vel. Ég fékk svo leyfi til að láta reyna á þetta frekar, það versta sem myndi gerast væri þá að ég myndi bara fara úr lið. Mér fannst það þó ekkert svakalega góður kostur.“ Úr varð að Ómar er á leið í aðgerð í sumar og mun hann ekkert stíga inn á knattspyrnuvöllinn á næstunni. Nema þá bara ef hann laumist aðeins yfir hliðarlínuna þar sem varamenn og þjálfarar halda sig. Ómari líst vel á liðið hjá Njarðvíkingum en hann segir það ungt og spennandi. Það er svo aldrei að vita nema hann fái að stjórna liðinu einn síns liðs ef Guðmundur þjálfari finnur fiðring í tánum og ákveður að spreyta sig í framlínunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hef hugsað um að hætta. Þetta gæti verið endirinn hjá mér. Mig langar þó að spila aftur.“

Ömurlegt að vera meiðslapési

javascript:void(0)Er erfitt að vera meiðslapési? „Það er ömurlegt og hundleiðinlegt. Bæði þarf maður að dvelja tímunum saman hjá sjúkraþjálfara og svo er það andlega hliðin. Maður veltir því fyrir sér hvort maður nái næsta leik. Það snýst orðið allt um það og maður nær ekki neinum takti með því að æfa ekki reglulega eins og hinir.“ En hefur Ómar þá velt því fyrir sér að hætta að spila? „Ég hef hugsað um það. Þetta gæti verið endirinn hjá mér. Mig langar þó að spila aftur.“ Ómar mun að öllum líkindum ekki leika næstu tvö sumur eftir aðgerðina og þá verður hann orðinn 35 ára gamall. „Ég sé til eftir aðgerðina en það er bara fyrsta skrefið. Það er ekkert öruggt í þessu,“ segir nýr aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga að lokum.