Fer Keflavík áfram í kvöld?
Keflavíkurstúlkur geta tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik með heimasigri á Grindavík í kvöld.
Keflvíkingar unnu fyrri leikinn nokkuð óvænt í Grindavík, 83-90, en á lokasprettinum sást glögglega hvort liðið er ríkjandi þrefaldur Íslandsmeistari.
Gestirnir byrjuðu líka mun betur þar sem þær komust í 2-13, en eftir það jafnaðist leikurinn nokkuð. Í hálfleik var staðan 37-38, en Grindvíkingar áttu ágæta endurkomu sem helgaðist af því að Jovana Lilja Stefánsdóttir fann fjölina sína og skoraði 12 stig á örskotsstundu. Eftir það var leikurinn jafn, en Lakiste Barkus kom Keflavík í 62-68 með þriggja stiga körfu um leið og lokaflaut 3. leikhluta gall.
Lokakaflinn var æsispennandi þar sem meistararnir voru jafnan skrefi á undan. Hildur Sigurðardóttir fór af velli með 5 villur þegar staðan var 71-71 og sá greinilegan mun á liðinu við brotthvarf hennar.
Staðan var 78-83 þegar stuttur tími var til leiksloka, en mikilvæg 3ja stiga karfa frá Ernu Rún Magnúsdóttur galopnaði leikinn, staðan 81-83. María Ben Erlingsdóttir rak hins vegar naglann í kistu Grindvíkinga strax í næstu sókn með 3ja stiga körfu og tryggði mikilvægan sigur.
Leikurinn í Grindavík var afar skemmtilegur á að horfa þó taugatitringur hafi sést, sérstaklega í sóknarleik liðanna. Í kvöld er hins vegar komið að úrslitastund og verður gaman að sjá hvernig fer.
VF - mynd/ Gilsi