Feðgin fóru á kostum
Snædís studdi pabba alla leið
Vikar Karl Sigurjónsson átti salinn þegar Íslandsmeistaramótið í hnefaleikum fór fram í hnefaleikahöll HFR um síðustu helgi. Vikar varð Íslandsmeistari í léttþungavigt eftir 3-0 sigur á Sigurði Eggertssyni frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Alls voru átta Íslandsmeistarabardagar á mótinu en áhorfendur fylktu sér að stærstum hluta á bak við Vikar. Sökum aldurs detta hnefaleikamenn út úr Íslandsmótinu við 34 ára aldurinn en Vikar er 35 ára og fékk undanþágu til að taka þátt í mótinu. Hann hefur fulla trú á því að hann fái undanþágu til þess að verja titilinn sinn á næsta ári en titillinn um helgina var hans fyrsti Íslandsmeistaratitill.
,,Nú á ég titil að verja og fordæmi fyrir undanþágum er komið svo ég hef enga trú á öðru en að ég fái undanþágu á næsta ári, sérstaklega þar sem við erum svo ný í boxinu hér á landi,” sagði Vikar í samtali við Víkurfréttir. ,,Við þurfum ekki að framfylgja reglunum af jafn miklum móð og þeir gera úti þar sem þetta er svona nýtt hjá okkur,” sagði Vikar sem átti hug og hjörtu áhorfenda á mótinu en hans dyggasti stuðningsmaður lét sig ekki vanta.
Dóttir Vikars heitir Snædís Glóð og er 8 ára gömul og verður brátt 9 ára. Hún leiddi pabba sinn inn í hringinn og var ekki lengi að stökkva í fangið á honum þegar það kom í ljós að Vikar var orðinn Íslandsmeistari. ,,Þetta var í fyrsta sinn sem hún horfir á mig boxa en hún er mikill áhugamaður um hnefaleika. Snædís horfði t.d. með mér á raunveruleikaþættina Contender og var ekki síður spennt yfir þeim en ég. Hún á sína eigin boxhanska og skuggaboxar með mér annað slagið,” sagði Vikar en þau feðgin tóku sig vel út í hringnum á laugardag með sigurlaunin.
Vikar starfar sem prentari í Grágás og er eigandi Lífsstíls svo það eru hæg heimatökin við að halda sér í formi, í reynd hluti af því að mæta í vinnuna. Vikar á 16 skráða bardaga að baki en telur að í heildina séu þeir um 20 talsins sem gerir Vikar að einum reynslumesta hnefaleikamanni þjóðarinnar.
,,Ég á einnig þrjá bardaga erlendis og nokkra óskráða bardaga svo í heildina eru þetta um 20 bardagar og sigurhlutfallið um 50%,” sagði Vikar sem útilokar það ekki að halda erlendis og taka þátt í atvinnumannabardaga. ,,Það gæti hentað mér að fara í lengri bardaga en atvinnumannabardagar t.d. í Svíþjóð eru 4 lotur og 3 mínútur hver lota,” sagði Vikar en hér heima eru loturnar þrjár og tvær mínútur í senn. ,,Ég er í góðu úthaldi en þessar pælingar með atvinnumannabardaga erlendis eru skammt á veg komnar,” sagði Vikar sem fór beint inn í úrslitabardaganna þar sem forföll urðu í léttþungavigtinni.
,,Ég hefði viljað fá undanúrslitabardaga því ég boxaðist mánudaginn fyrir mót í þeirri trú að ég ætti að berjast í undanúrslitum á fimmtudag eða föstudag en svo varð ekki,” sagði Vikar sem komst því beint í úrslitabardagann og þar lét hann heldur betur finna fyrir sér.
Íslandsmeistarinn sagði það mikla adrenalínsprautu að fara í hringinn og að þegar lætin í áhorfendum og stuðningurinn væri jafn mikill og um síðustu helgi þá fyndi maður lítið sem ekkert fyrir þeim höggum sem á manni dyndu.
,,Maður sér í rauninni ekkert af bardaganum fyrr en maður horfir á hann á video. Stundum er bara eins og högg andstæðinganna séu ekki að koma en vissulega er maður aumur hér og hvar í skrokknum eftir bardaga. Eftirá er þetta bara eins og fótboltaleikur, þungt högg þarf ekki að vera verra en bara venjuleg tækling,” sagði þessi þolgóði Suðurnesjamaður sem fær vonandi það tækifæri á að verja titilinn sinn á næstu hnefaleikatíð.