Feðgar skrifa undir samning við Grindavík
Feðgarnir Milan Stefán Jankovic og Marko Valdimar Stefánsson skrifuðu í dag undir þriggja ára samning við Grindavík, eða út árið 2012.
Milan Stefán verður áfram aðstoðarþjálfari Grindavíkur og mun jafnframt stýra knattspyrnuakademíu og séræfingum hjá félaginu. Hann er öllum hnútum kunnur hjá Grindavík eftir að hafa verið bæði leikmaður og þjálfari hjá félaginu meira og minna síðan 1992.
Marko Valdimar er 19 ára og einn efnilegasti varnarmaður landsins. Hann lék sjö fyrstu leiki liðsins í Pepsi-deildinni í sumar en lenti í vinnuslysi og hefur verið frá síðan þá. Hann er óðum að ná sér á strik og lék með 2. flokki í vikunni.
Þá skrifaði Guðmundur Egill Bergsteinsson einnig undir 3ja ára samning við Grindavík í dag. Hann er aðeins 17 ára og gríðarlega efnilegur bakvörður. Guðmundur Egill kom inn á sínum fyrsta meistaraflokksleik með Grindavík gegn Fram um síðustu helgi.