Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Færi Keflvíkinga fóru forgörðum
Markvörðurinn Vera Varis var besti maður Keflvíkinga í kvöld og varði oft vel. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 24. júlí 2024 kl. 22:29

Færi Keflvíkinga fóru forgörðum

Keflavík nýtti ekki færin sín og tapaði naumlega fyrir Þór/KA í kvöld í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Vera Varis varði nokkrum sinnum vel og má segja að markverðir liðanna hafi stolið senunni í kvöld.

Keflvíkingar vörðust vel í leiknum og skyndisóknir þeirra voru oft hættulegar en inn vildi boltinn ekki. Þegar upp var staðið skildi glæsilegt mark Huldu Óskar Jónsdóttur liðin að og norðankonur tóku öll stigin með sér heim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavík - Þór/KA 0:1

Gestirnir hófu leikinn með látum og sóttu hart að Keflvíkingum en heimakonur vörðust vel og unnu jafnt og þétt sig framar á völlinn.

Eftir 25 mínútna leik fékk Regina Solhaug Fiabema ágætis færi en markvörður gestanna varði vel.

Fyrri hálfleikur var býsna fjörlegur og á næstu mínútum fengu bæði lið góð færi en markverðirnir voru vel vakandi og vörðu vel.

Fyrst komst Saorla Lorraine Miller í gegn en en Harpa í marki Þórs/KA varði vel frá henni, boltinn barst til Anitu Lindar Daníelsdóttur sem átti efnilegt skot en aftur varði Harpa.

Saorla í góðu færi.

Þá var komið að gestunum og svipuð atburðarrás átti sér stað Keflavíkurmegin. Hulda Ósk Jónsdóttir komst í gott færi en Vera Varis varði glæsilega, fyrirliði gestanna, Sandra María Jessen, náði frákastinu en aftur varði Vera Varis vel.

Miller komst ein á móti markverði um fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks en aftur kom markvörður Þórs/KA í veg fyrir mark.

Virkilega fjörugur en markalaus fyrri hálfleikur.

Gott úthlaup hjá Veru sem handsamanar knöttinn örugglega.

Þegar seinni hálfleikur fór af stað byrjuðu gestirnir aftur með pressu en snemma fékk Keflavík fyrsta færi sitt.

Melanie Claire Rendeiro var brúin að vera gríðarlega vinnusöm og hlaupa mikið en eftir að um sjö mínútur voru liðnar af seinni hálfleik spretti hún upp vinstra megin og sendi fyrir en Saorla Lorraine Miller náði ekki til boltans.

Miller var þegar þarna var komið við sögu aðeins á öðrum fætinum eftir að brotið hafði verið á henni í fyrri hálfleik og hún fór skömmu síðar af velli.

Þór/KA náði forystunni á 58. mínútu þegar norðankonur sóttu og boltinn barst til Huldu Óskar Jónsdóttur sem fékk næði til að leggja hann fyrir sig og ná skoti – og skotið var glæsilegt, skrúfað efst í fjærhornið og Varis átti engan séns í boltann.

Keflvíkingar lögðu allt í sölurnar og settu mikla pressu á gestina síðustu mínúturnar. Rendeiro skapaði mikla hættu stuttu fyrir leikslok þegar hún komst upp að endamörkum og sendi fastan bolta inn í markteiginn, þar fór hann af varnarmanni og stefndi í markið en Harpa sýndi mikla snerpu og varði enn og aftur.

Keflavík nálægt því að jafna en Harpa bjargaði á síðustu stundu.

Úrslit leiksins hefðu getað lent hvoru megin en það verður að segjast að heimakonur lögðu sig allar fram og áttu alveg skilið að fá eitthvað út úr leiknum en þegar upp er staðið eru það mörkin sem telja og bæði lið hefðu getað skorað talsvert fleiri mörk ef markverðirnir hefðu ekki sýnt stórleik á báðum endum vallarins.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og ræddi við Kristrúnu Ýr Holm, fyrirliða Keflavíkinga, eftir leik. Myndasafn frá leiknum er neðst á síðunni.

Keflavík - Þór/KA (0:1) | Besta deild kvenna 24. júlí 2024