Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fær útrás í gegnum hreyfingu
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 29. september 2019 kl. 08:45

Fær útrás í gegnum hreyfingu

„Ég labba rosalega mikið og var núna að koma úr fimm kílómetra göngu með hundinum mínum og nágrannakonu og hundinum hennar. Mér finnst venjuleg heilsuganga gefa mér mest, það hreinsar hugann, bara svo æðislegt að vera úti í náttúrunni og labba meðfram sjónum,“ segir Anna Sigríður Guðmundsdóttir sem segist alltaf fara sama hringinn. Hún er dugleg í heilsuræktinni og VF hitti hana í Lífsstíl.

„Ég fer alltaf ákveðinn hring og svo kem ég hingað að byggja upp og styrkja vöðvana mína. Þetta er svo heilsueflandi eftir því sem árin færast yfir. Mér finnst ég ótrúlega heilsuhraust en vinn markvisst í því. Hreyfing er í daglegri rútínu hjá mér sem gefur mér vellíðan, góða heilsu og heilbrigði. Ég fæ útrás í gegnum hreyfinguna. Ég er opin fyrir alls konar líkamsrækt, hef prófað jóga og einnig hugleiðslu en mér finnst gangan skemmtilegust. Fyrsta skrefið hjá þeim sem ekki eru að hreyfa sig er að fara út að labba og þó það sé ekki nema í tíu mínútur þá finnur fólk fljótt mun ef það byrjar að hreyfa sig reglulega. Þolið er fljótt að aukast. Allir verða að finna hreyfingu sem hentar þeim, hvort sem það er sund, jóga, göngur og fleira, aðalatriðið er að hafa gaman af því sem þú ert að gera. Ég borða hollan en fjölbreyttan heimilismat. Að borða reglulega skiptir máli.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024