Fær Blikabaninn að láta ljós sitt skína?
Fróðlegt verður að sjá í kvöld hvort Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson fái tækifæri til að sýna hvað í sér býr þegar KR og Breiðablik mætast í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld. Eins og kunnugt er gekk Óskar í raðir KR-inga að lokinni síðustu leiktíð þegar Grindvíkingar féllu úr Landsbankadeildinni.
Óskar hefur fengið að leika í 143 mínútur með KR í sumar af þeim 900 sem hafa verið í boði og þá hefur gengi liðsins ekki verið til þess að hrópa húrra yfir.
Á síðustu leiktíð fór Óskar hins vegar á kostum í báðum Grindavíkurleikjunum gegn Blikum og gerði þá fjögur mörk í þessum tveimur leikjum og öll voru þau í vænlegri kantinum. Spurning hvort Teitur Þórðarson sjái sér fært um að nýta sér Blikabanann úr Njarðvíkunum í kvöld?
Byggt á frétt úr Fréttablaðinu í dag, www.visir.is
VF-mynd/ [email protected] - Óskar Örn í viðtali eftir fyrri leik Grindavíkur og Blika á síðustu leiktíð þar sem hann gerði glæsilegt sigurmark Grindvíkinga í leiknum.