Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 22. nóvember 2001 kl. 13:47

Eysteinn Hauksson svarar knattspyrnudeild Keflavíkur - Lokaþras!

Ég vil byrja þessa lokagrein mína í þessu máli á því að segja að ég sé alls ekki eftir því að hafa skrifað greinina sem birtist á vef Víkurfrétta síðastliðinn mánudag og er sannfærðari nú en nokkru sinni fyrr, að sú umræða sem hefur skapast um hana verði félaginu til framdráttar, ef til lengri tíma er litið.Ég sé hins vegar eftir því að hafa hugsanlega búið til alhæfingu í huga einhverra um það að allir þeir leikmenn sem yfirgefi félög sín vegna þess að þeir sjái ekki fram á að hljóta nein hlunnindi fyrir að leika knattspyrnu, breytist þar með í rottur. Ýmsir leikmenn sjá sig oft á tíðum knúna til þess vegna sérstakra aðstæðna sem ekki verður við ráðið og eiga því ekki annarra kosta völ. Slíka leikmenn sem lesið hafa grein mína bið ég innilega afsökunar.
Einnig sé ég eftir því að hafa dregið syni stjórnarmanna inn í þessa umræðu, þó að í léttum dúr hafi átt að vera. Þetta eru allt drengir góðir sem leggja hart að sér við æfingar og búa yfir miklum metnaði. Við þá er ekkert að sakast. Ég bið þá innilega afsökunar og vil að það komi skýrt fram að ég óska þeim alls hins besta.


Og lést þá hesturinn......

Ég verð nú að segja það alveg eins og er, í ljósi ýmissa ákvarðana og atburða sem drifið hafa á daga stjórnar knattspyrnudeildar Keflavíkur á undanförnum árum,að ég átti síst af öllu von á því að ég ætti eftir að upplifa það að sjá bréf, þaðan komið, sem skrifað væri undir fyrirsögninni:“SVONA GERA MENN EKKI” nema þá kannski helst að það fjallaði um þá sjálfa, en það kom nú samt á daginn.

Í svari þeirra við grein minni, sem þeir taka reyndar skýrt fram að ekki sé svara verð, koma þeir inn á ýmis atriði sem ég kýs að nota tjáningarfrelsi mitt til að svara.

Meðlimir “Túlibana”- stjórnarinnar eins og ég kýs að kalla þá í dag, taka það fram að þeir hafi í einu og öllu staðið við samning sinn gagnvart mér og heyrist manni á málflutningi þeirra að slíkt ætti að teljast til tíðinda ( ? ).
Það er kannski rétt að geta þess að ég gerði slíkt hið sama og rúmlega það en vanefndir þeirra á einu atriði samningsins sem við gerðum 1998 urðu hins vegar til þess að ég varð þeim slíkur “baggi” sem raun varð á, og get ég sýnt stjórnarmönnum það svart á hvítu ef þeir vilja. Ég hef aldrei komið inn á þá umræðu hvort samningurinn hafi verið góður eða slæmur enda finnst mér það einfaldlega alls ekki koma þessu máli við. Þeir kjósa hins vegar að minnast á það að fáir leikmenn hafi hlotið betri samning, og má það vel vera. Á móti vil ég hins vegar velta upp þeirri spurningu hversu margir leikmannanna hafi haft úr samsvarandi boðum að velja og ég hafði á þessum tíma eins og kom fram í fyrri grein minni.
Þeir spyrja einnig, síðan hvenær Keflavík hafi ekki rétt á því að semja ekki við menn. Svar mitt við því er einfalt og það er að ég taldi mig koma því til skila í grein minni að ég hefði sýnt því fullan skilning ef þeir hefðu ekki viljað það. Þeir hafa að sjálfsögðu alltaf haft rétt á því eins og þeir höfðu þegar mér bauðst að fara annað á sínum tíma, sem hefði svo, þegar öllu er á botninn hvolft, ef til vill verið besta lausnin fyrir mig að velja. Þeir voru þó ekki beint á þeirri skoðun, þá dagana.
Ég ætlaði mér aldrei að gera grín að fjárhagsvanda deildarinnar heldur var ætlun mín að gagnrýna það hvernig honum var komið til skila í fjölmiðlum. Það sem fór í taugarnar á mér við það var t.d grein sem birtist í Víkurfréttum fyrir stuttu þar sem vitnað var í formanninn og hljómaði eitthvað á þessa leið:

“Ljóst er að knattspyrnudeildin er í miklum fjárhagsvanda og að við missum eitthvað af leikmönnum. Eysteinn er farinn og ljóst er að Zoran Ljubicic verður ekki áfram”.

Þetta finnst mér líklegt að gefi flestum lesendum til kynna að ekki komi til greina af minni hálfu að leika fyrir félagið án þess að fá peninga fyrir það, sem ég hreinlega neita að samþykkja að hafi ekki hvarflað að mér fram að kveðjustundinni frægu. Framhald greinarinnar er einnig nokkuð forvitnilegt í ljósi umræddra samskipta- vinnubragða stjórnarmanna en þar heldur formaðurinn áfram:

“Ég hef reyndar ekki heyrt í Zoran sjálfum en ljóst er að við höfum ekkert að bjóða honum”.

Það hefur eflaust verið gaman fyrir Zoran félaga minn, að fá þetta staðfest í fjölmiðlum.

Hvað þær fullyrðingar varðar að ég hafi ekki íhugað þann möguleika að leika fyrir félagið án hlunninda og að ég hafi ekki viljað ræða það að slá af kröfum mínum, stendur hreinlega orð gegn orði og reynir þá á þau orðspor sem báðir aðilar hafa skapað sér á undanförnum árum með atferli sínu í knattspyrnuheiminum.
Einnig stendur orð gegn orði um það hvort einn stjórnarmanna hafi fullyrt það fyrir framan félaga mína í leikmannahópnum, á fundi í Reykjaneshöll fyrir stuttu, að hann hafi sjálfur reynt að semja við mig en það hafi ekkert gengið þar sem það hafi verið sama hvað þeir hefðu boðið, ég hafi bara teygt mig hærra og hærra um leið.
Þetta get ég ekki fullyrt neitt um að hann hafi sagt þar sem ég var ekki á umræddum fundi en hef þetta þó frá tveimur mjög trúverðugum (að mínu mati) einstaklingum innan hópsins sem ég get skiljanlega ekki nafngreint, sem tóku það fram að þetta þætti þeim ekki smekkleg vinnubrögð, að mér fjarstöddum. Ég stóð aldrei í neinum samningamálum við þennan mann. Ég hitti hann einu sinni í haust í fyrirtæki hans hér í bæ og við ræddum ýmsa möguleika í rólegheitunum og vorum sammála um að hvað sem gerðist myndum við finna einhverja lausn á þessum málum. Ég nafngreini hann ekki heldur en get þó sagt að hann er hestamaður mikill og að ákveðnum ástæðum tel ég það líklegt að hans uppáhaldsgæðingur sé hinn gamalreyndi og vel þekkti klár, Uppspuni frá Rótum.

Frá því grein mín birtist hef ég fengið allnokkur viðbrögð frá fólki sem segir mér að ég sé ekki einn um þá skoðun að víða sé pottur brotinn í framkomu– og samskiptamálum stjórnarinnar, útávið. Sum þeirra voru mjög neikvæð, eins og við mátti búast, en mikilvægust fundust mér skilaboðin sem ég hef heyrt mest af en þau eru svohljóðandi að loksins hafi einhver þorað að stíga fram og segja það sem segja þyrfti, til að einhver framför yrði í þessum málum.
Það er altalað á götum bæjarins, þó eðli málsins samkvæmt fái stjórnarmenn aldrei að heyra það, að ef þessi mál væru í lagi kæmi töluverður fjöldi fólks fram sem vildi gjarnan leggja félagi sínu lið og hefur til þess vilja, dugnað og þekkingu en hins vegar ekki áhuga, á meðan málin eru í þessum farvegi.
Einnig er aldrei að vita hvort þarna sé fundin ástæða þeirrar stöðugt minnkandi aðsóknar að heimaleikjum liðsins, sem stjórnarmennirnir kvarta svo oft yfir.

Sumir vilja meina að grein mín sé eitt stórt ÉG. Þeir vilja meina að ég hafi skrifað hana til að gera mig að einhvers konar hetju, eftir að þeir höfðu lesið um hvað ég taldi mig hafa gert fyrir félagið, óumbeðinn, og verðskuldaði að mínu mati að mér væri að minnsta kosti þakkað samstarfið. Nú, eða jafnvel að ég væri kvaddur með handabandi eða einhverju slíku, sem telst, eftir því sem mér var kennt að minnsta kosti, til góðra siða á ýmsum bæjum.
Það finnst mér hreinlega út í Bláfell að segja. Ég geri mér nefnilega manna best grein fyrir því að það eru/voru starfandi menn innan raða þessa félags sem hafa lagt það á sig allan sinn feril að stunda æfingar og leiki samhliða erfiðisvinnu, vegna einskærs áhuga og ástar á knattspyrnunni og ekki síður félaginu, án þess að biðja um neitt í staðinn. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim og þeirra störfum á þeim tíma sem ég hef dvalið hér og það hefur aldrei verið neitt vafamál í mínum huga að þeir séu hinar sönnu hetjur þessa félags.
Nei, ég skrifaði ekki þessa grein ekki til þess að verða hetja, heldur til að vekja athygli stjórnarmanna á því að þótt sjálfsagt fylgi störfum þeirra oft mikil streita, eigi þeir að geta sýnt almenna mannasiði og lokið samstarfi með meiri reisn en mér fannst oft vera raunin. Sem dæmi um það get ég nefnt hvernig Keflavík skildi við hinn gallharða Snorra Má Jónsson og glæsimarkasérfræðinginn Róbert Sigurðsson, á sínum tíma, sem báðir áttu að mínu mati mun betra skilið.
Reyndar var þeirri hugmynd skotið að mér um daginn að það væri kannski ekki svo vitlaust að stofna bara sérstakt félag leikmanna sem héðan hefðu farið ósáttir í gegnum tíðina. Ég hugsa að þetta gæti verið ágætis lið sem tilvalið væri að skíra nafni sem tilheyrði tíðarandanum eða KNATTSPYRNUFÉLAGIÐ BROTTKAST. Einhverjir vilja þó sjálfsagt meina að það myndi nú líklega ekki nást í heilt lið, en eitt er alveg öruggt, að ekki myndi skorta þjálfarana........en þetta er nú útúrdúr.

Ef tekið verður á þessum málum er Keflavík, að mínu mati, glæsilegasta félag landsins og trú mín sú að margir gamlir félagar vilji koma inní starfið á nýjan leik.

Ég nota hér með tækifærið og skora á alla þá sem langar til að vera félaginu að liði í stjórn eða verkum, að láta nú verða að því að hafa samband við stjórnarmenn og bjóða fram krafta sína. Er ég viss um að þeir taka á móti ykkur með betri siðum en mér fannst þeir kveðja mig með.

Það sem ég vildi fá fram með bréfi mínu var fyrst og fremst opinber umræða og vakning um þessi málefni og að koma í veg fyrir að þessi gætu endalokin orðið á tíð einhverra þeirra leikmanna sem áfram leika fyrir félagið. Umræðan hefur nú þegar skilað sér og nú vona ég að vakningin fylgi í kjölfarið.

Ég er hjartanlega sammála stjórninni í einu atriði, að nóg sé nú komið af þrasi og kominn tími til að einbeita sér að því sem skiptir mestu máli en það er jú, að spila fótbolta, sumir eflaust fyrir peninga en vonandi aldrei eingöngu vegna þeirra.

Ég fer ekki fúll frá félaginu, mér þykir þvert á móti afar vænt um það. Ég mun styðja það um ókomna tíð óháð því hverjir sitja í stjórn eða leika á vellinum og hvort sem menn kjósa að trúa því eða ekki, skrifaði ég þetta bréf með velferð þess í huga.

LEIKMENN OG BÆJARBÚAR!!!! Tökum orð formannsins til greina, snúum bökum saman, hættum öllu þrasi, útá völl og eins og maðurinn sagði forðum: “EKKERT HELV........... BANANA – GEIM !!!!!!!!!!!


Kveðja,
Eysteinn Hauksson
fyrrverandi leikmaður
meistaraflokks keflavíkur.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024