Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Eysteinn áfram með Keflavík - Janko verður aðstoðarþjálfari
Miðvikudagur 17. október 2018 kl. 16:38

Eysteinn áfram með Keflavík - Janko verður aðstoðarþjálfari

Eysteinn Húni Hauksson verður áfram aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Keflavík en Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur gert samninga til þriggja ára við nýtt þjálfarateymi sem fær það hlutverk að byggja upp nýtt og sterkara Keflavíkurlið.
Í samstarfi við Eysteinn verður unnið markvisst að því að halda áfram að byggja upp unga og efnilega leikmenn Keflavíkur. Áhersla verður lögð á það að gefa ungu fólki tækifæri á að láta drauma sína rætast og bæta við titlum í safn sigursæls Keflavíkurliðs.

Til aðstoðar við uppbygginguna og sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hefur Knattpsyrnudeild Keflavíkur einnig gert samning við Milan Stefán Jankovic sem kemur frá Grindavík. Janko er einn örfárra þjálfara á Íslandi sem lokið hafa UEFA Pro þjálfaragráðu, sem er æðsta gráða sem hægt er að afla sér sem þjálfari. Hann var áður aðalþjálfari Keflavíkur frá árinu 2003 og kom liðinu í efstu deild á fyrsta ári og vann bikarmeistaratitil árið á eftir með ungan og efnilegan hóp leikmanna. Janko mun einbeita sér að því að byggja upp afrekshugsun, tæknilega getu og keppnishug leikmanna meistaraflokks Keflavíkur.

Þá hefur einnig verið gerður áframhaldandi samningur við Ómar Jóhannsson um markmannsþjálfun meistaraflokka karla og kvenna auk þess sem hann mun koma að þjálfun efnilegra yngri markmanna félagsins.

Gunnar Magnús Jónsson og Haukur Benediktsson munu halda áfram sem aðal- og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna sem mun leika í Pepsí deild á næsta ári.

Knattspyrnulið Keflavíkur hafa verið með sigursælustu liðum landsins um árabil. Félagið hefur fjórum sinnum unnið Íslandsmeistaratitil og fjórum sinnum orðið bikarmeistari. Fjöldi uppaldra leikmanna Keflavíkur hafa leikið fyrir landslið Íslands og í dag eru fjórir uppaldir leikmenn félagsins atvinnumenn hjá félögum í Evrópu. Eftir erfitt keppnistímabil sem nú er að baki, hefur stjórn félagsins ákveðið að horfa fyrst og fremst inná við í starfi félagsins fyrir framtíðina. Lögð verður megin áhersla á að byggja upp sterkan hóp uppaldra leikmanna og veita þeim tækifæri á að sína fram á að þeir geti staðist samanburð við bestu leikmenn landsins. Einnig verður lögð áhersla á að byggja upp aðstöðu og innviði til að laða að unga og efnilega leikmenn sem vilja koma til félagsins og þroskast sem knattspyrnumenn og einstaklingar í metnaðarfullu umhverfi undir handleiðslu öflugra þjálfara, segir í frétt frá Keflavík.
 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024