Eyrún og Ína María yfirgefa Njarðvík
Þær Ína María Einarsdóttir og Eyrún Líf Sigurðardóttir hafa báðar ákveðið að segja skilið við Njarðvíkinga í Domino´s deild kvenna í körfubolta. Báðar eru þær uppaldar hjá félaginu og tóku þátt í því að vinna tvöfalt með liðinu í fyrra. Þær stunda báðar nám í Reykjavík við Verslunarskólann. Frá þessu var greint á vefsíðunni Karfan.is sem hefur eftir Eyrúnu að vegna anna í námi en auk þess eru stúlkurnar búsettar í Reykjavík.
„Þetta er eitthvað sem við ætluðum að gera í fyrra en einhvernveginn fjaraði það alltaf út. Það hefur verið erfitt að stunda nám í Reykjavík en æfa í Njarðvík og sparar þetta okkur mikinn tíma og pening. Það var auðvitað aldrei áætlunin að fara frá heimaliði okkar á miðju tímabili og okkur þykir þetta mjög erfið og leiðinleg staða en þetta er eitthvað sem við þurfum að gera. Þessi ákvörðun var eiginlega tekin eftir að ég fékk stundatöfluna mína og sá hversu þung hún er þetta árið. Maður þarf að velja og hafna og námið gengur fyrir,“ sagði Eyrún líf sem kvaðst einnig ánægð með hvað þjálfarar Njarðvíkurliðsins sýndu henni og Ínu mikinn skilning. „Við óskum liðinu auðvitað alls hins besta það sem af er tímabilinu,“ sagði Eyrún.
Eyrún var ekki viss hvort hún ætlaði að reyna fyrir sér hjá liði á höfuðborgarsvæðinu „Ég svara auðvitað bara fyrir mig en ég hef ekkert hugsað út í það enda var þetta allt saman mjög skyndilegt. Auðvitað væri gaman að fá að halda áfram að spila í úrvalsdeild en eins og er veit ég ekki hvernig þetta verður hjá mér.“