Eyjamenn fengu liðstyrk úr óvæntri átt
Það var ýmislegt sem gekk á í leik Keflavíkur og ÍBV í gær í Símadeild karla í knattspyrnu en ekkert hefur eflaust vakið eins mikla athygli og þegar ungur piltur hljóp inná völlinn undir lok leiksins. Keflvíkingar voru í einni af sínum fjölmörgu skyndisóknum þegar pilturinn hleypur frá marki Eyjamanna og yfir allan völlinn á móti sókn Keflvíkinga.Ekki er vitað hvort þetta hafi verið Eyjapeyji sem vildi stöðva sókn Keflvíkinga en eitt er víst að það voru margir sem ráku upp stór augu þegar þeir sáu þetta skondna atvik eiga sér stað. Leikmenn beggja liða voru þó ekkert að hafa miklar áhyggjur af þessu og héldu áfram að spila eins og ekkert hefði gerst.