Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

EVRÓPULEIKUR Í KVÖLD!
Miðvikudagur 26. nóvember 2003 kl. 14:43

EVRÓPULEIKUR Í KVÖLD!

Í kvöld er boðið til körfuboltaveislu þegar Keflvíkingar taka á móti CAB Madeira  í Evrópukeppni Bikarhafa.
Riðillinn sem liðin eru í hefur reynst mun jafnari en nokkur hafði átt von á og eru öll lið jöfn eftir tvær umferðir með einn sigur og eitt tap. Falur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, bendir á þá staðreynd að allir leikirnir hafi unnist á heimavelli. „Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að vinna þessa heimaleiki og það hefur sýnt sig að stuðningur áhorfenda hefur skipt sköpum þar sem afar lítið er um að stuðningsmenn fylgi liðum á útivelli. Ég vona bara að við náum upp sömu stemmningu og í síðasta leik sem var alveg frábær.“
Í fyrsta leik Keflavíkur, sem var háður hér heima, unnu þeir frækinn sigur á Ovarense Aerosoles en töpuðu hins vegar fyrir Toulon í leik liðanna í Frakklandi. Vonandi er að Keflvíkingar mæti til leiks í kvöld í sama ham og í síðasta heimaleik vegna þess að sigur í heimaleikjum er algert lykilatriði ef liðið ætlar sér upp úr riðlinum.

Í fljótu bragði virðist lið CAB Madeira vera umtalsvert lakara en önnur lið riðilsins. Í augnablikinu eru þeir í næst neðsta sæti portúgölsku deildarinnar og haf einungis unnið 2 af 9 leikjum sínum. Á toppnum trónir hins vegar Ovarense sem sótti ekki gull í greipar Keflvíkinga í heimsókn sinni á Sunnubrautina, eins og áður kom fram. Leikmenn Madeira eru mun hærri en Keflvíkingar en virðast einnig vera hægir. Það ætti að gefa Keflavík færi á að sækja hratt og beita sínum skæðustu vopnum þ.e. hraðaupphlaupum og langskotum.

Fremstur meðal jafningja í liði gestanna hlýtur að teljast Nate Johnston sem hefur marga fjöruna sopið á sínum langa ferli sem atvinnumaður. Eftir háskólanámið var hann viðloðandi CBA-deildina og varð svo frægur að spila um 20 leiki með Portland Trailblazers í NBA. Á síðustu árum hefur Johnston þessi flakkað um allan heim sem atvinnumaður og meðal annars haft viðkomu á Spáni, allmörgum Suður-Ameríkulöndum og USBL-deildinni í Bandaríkjunum. Hann stoppar yfirleitt stutt og hefur m.a. ekki stoppað í meira en eina leiktíð hjá einu liði síðan hann var hjá Rapid City Thrillers (CBA) árin 19909-1992.
Johnston, sem er á 36. aldursári stendur þó enn fyrir sínu og hefur verið að skora um 20 stig í leik og er mjög góð 3ja stiga skytta miðað við svo hávaxinn mann og er án efa skæðasta ógn Madeira. Auk hans má telja að Keflavík megi passa vel upp á leikstjórnandann Chema Markos, sem er 25 ára Spánverji og virðist fantagóð þriggja stiga skytta, og Pedro Nuno sem er reyndur portúgalskur landsliðsmaður og gæti valdið nokkrum usla. Hann hefur þó ekki leikið marga leiki í deildinni og spurning hvort hann sé leikfær.

Keflvíkingar geta þó ekki teflt fram sínu sterkasta liði þar sem Hjörtur Harðarson meiddist í leik um síðustu helgi auk þess sem Arnar Freyr Jónsson hefur ekki náð sér að fullu eftir höfuðhögg sem hann fékk fyrir skemmstu. Þannig er ljóst að álagið verður meira á þeim bakvörðum sem heilir eru, en það kemur ávallt maður í manns stað og Keflvíkingar eru með mikið af góðum bakvörðum sem eiga án efa eftir að standa sig.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur mun standa fyrir ýmsum uppákomum á leiknum og verður m.a. veglegt „ljósashow“ eins og í síðasta Evrópuleik og skotkeppni og fleira skemmtilegt í hálfleik. Leikurinn hefst kl.19.15 en áhorfendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega vegna þess að ljósashowið mun byrja stundvíslega kl. 19.05
Víkurfréttir skora á alla körfuknattleiksáhugamenn að mæta til leiks og styðja við bakið á Keflvíkingum. ÁFRAM KEFLAVÍK!!

Vf-ljósmynd/Þorgils: Úr leik Keflavíkur og Njarðvíkur um síðustu helgi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024