Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Evrópuboltinn: Stóra stundin í dag
Laugardagur 17. júní 2006 kl. 12:16

Evrópuboltinn: Stóra stundin í dag

Keflvíkingar leika gegn Norður-írska liðinu Dungannon Swifts í fyrstu umferð Inter-TOTO keppninnar í knattspyrnu í dag og hefst leikurinn kl. 17.

Ekki er vitað mikið um andstæðingana en þeirra besti maður er David Scullion sem er U-21 landsliðsmaður í liði N-íra. Seinni leikurinn fer fram eftir viku, laugardaginn 24. júní, í Lurgan í nágrenni Dungannon.


Lið Dungannon er frá samnefndum bæ í Tyrone-sýslu á Norður-Írlandi. Á írsku heitir bærinn Dún Geanainn en íbúar hans eru um 12.000. Bæjarbúar hafa helst stundað rugby í gegnum árin en þess má geta að golfarinn Darren Clarke er fæddur í Dungannon.
Dungannon Swifts var stofnað árið 1949 og lék lengst af í utandeildum. Það var ekki fyrr en upp úr 1970 að félagið hóf að leika í deildarkeppninni og árið 2003 léku Dungannon-menn svo í fyrsta skipti í efstu deild. Þar hefur árangur liðsins verið framar vonum og það tryggði sér sæti í InterToto-keppninni með því að ná 4. sæti nú í vor.

Heimavöllur Dungannon heitir Stangmore Park og var vígður árið 1975. Völlurinn tekur reyndar aðeins 3.000 manns og uppfyllir ekki kröfur UEFA varðandi leiki í Evrópukeppnum. Heimaleikur þeirra gegn Keflavík verður því á Mourneview Park sem er heimavöllur Glenavon.
Allir Keflvíkingar eru hvattir til að láta sjá sig og styðja sína menn. Stuðningsmenn munu koma saman á Yello fyrir leik þar sem þeir stilla strengi sína saman með nokkrum félögum úr Hafnarfjarðarmafíunni, stuðningsmönnum FH, sem hafa komið suður eftir til að leggja Keflvíkingum lið.

Samantekt um Dungannon: www.keflavik.is

 

VF-mynd úr safni: Úr Evrópuleik Keflavíkur og Etzella í fyrra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024