Evrópuævintýrið heldur áfram hjá Keflvíkingum
Í gærkvöldi var fundur með leikmönnum og stjórnarmönnum Keflvíkinga í körfuknattleik þar sem rætt var um framhald á Evrópukeppninni. Strax kom í ljós á fundinum að allir hafa brennandi áhuga á keppninni, menn eru sammála um að þetta verkefni sé það skemmtilegasta sem þeir hafa tekið þátt í og að allur veturinn komist upp á annað og hærra plan með þessari þátttöku. Farið var yfir fjárhagsáætlanir á fundinum og verkefnum skipt milli leikmanna og stjórnarmanna, allir þurfa að taka þátt í fjáröflunum og skila sínu. Í stuttu máli sagt var einróma samþykkt að taka aftur þátt í keppninni í haust, allir eru tilbúnir að leggja á sig töluverða vinnu.
Á undanförnum tveimur árum hafa Keflvíkingar fengið að kynnast evrópskum körfubolta með þátttöku sinni í FIBA Europe Cup. Leikmenn hafa þeyst um þvera og endilanga vestur Evrópu og Keflvískir áhorfendur hafa fengið að sjá aldeilis frábæra heimaleiki í Sláturhúsinu gegn atvinnumannaliðum frá Frakklandi, Danmörku og Portúgal. Allir eru sammála um að Evrópukeppnin hafi verið mikil lyftistöng fyrir íslenskan körfubolta og hefur þátttaka okkar fengið góða athygli og umfjöllun, eingöngu á jákvæðum nótum, og áhorfendur hafa flykkst á leikina.
Leikmenn, stjórnarmenn og aðstandendur hafa lagt hart á sig til að gera þennan Evrópudraum að veruleika, útgerðin er dýr og kallar á mikla sjálfboðavinnu. Leikmenn vilja ferðast og keppa við sterka útlendinga, og stjórnarmenn vilja bjóða Keflvíkingum upp á alþjóðlega keppni á háum staðli. En það er ekki sjálfgefið að allir séu klárir í slaginn ár eftir ár.
Að endingu var rætt um Kanamálin á fundinum, þar sem fyrir liggur að tekist verður á um fjölda Kana á þingi KKÍ um helgina. Það kom fram í máli stjórnarmanna að ef ekki verða leyfðir tveir Kanar, þá bresta allar forsendur um Evrópukeppnina. Því er bara að vona að ársþing KKÍ samþykki að leyfa áfram tvo Kana, því annars er þátttaka íslenskra liða í Evrópukeppnum úr sögunni.
Vf-mynd/úr safni: Jón Norðdal í baráttunni gegn Madeira í Evrópukeppninni á síðasta tímabili