Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Evrópuævintýri Víðis á enda
Fimmtudagur 14. ágúst 2008 kl. 11:08

Evrópuævintýri Víðis á enda

Víðismenn léku í gærkvöldi síðasta leik sinn í undankeppni Evrópukeppninnar í Futsal en riðillinn var leikinn í Frakklandi.  Víðismenn biðu lægri hlut fyrir Parnassos frá Kýpur með ellefu mörkum gegn sex en Kýpurbúar leiddu í hálfleik með þremur mörkum, 5-2.

Fyrir lokaumferðina voru Parnassos og gestgjafarnir, Roubaix frá Frakklandi, efst og jöfn með fjögur stig.  Frakkarnir voru með betri markatölu upp á tvö mörk og þurftu Kýpverjar að freista þess að vinna stóran sigur. Þeir byrjuðu leikinn vel og á fyrstu þremur mínútunum skoruðu þeir þrjú mörk.  Þá tóku Víðismenn við sér og komust betur inn í leikinn.  Einar Karl Vilhjálmsson minnkaði muninn á 13. mínútu og leikurinn varð mjög fjörugur.  Parnassos bættu við fjórða markinu á 10. mínútu en aðeins hálfri mínútu síðar skoraði Georg Sigurðsson annað mark Víðis af miklu harðfylgi.  Kýpurbúar áttu hinsvegar síðasta orðið í hálfleiknum og leiddu með þremur mörkum er flautað var til hálfleiks.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hörður Harðarson skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks þegar sjö mínútur voru liðnar af honum.  Parnassos skoruðu strax í næstu sókn á eftir en Hörður bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Víðis skömmu síðar eftir hornspyrnu Þorsteins Þorsteinssonar.  Georg Sigurðsson skoraði svo beint úr hornspyrnu þegar að níu mínútur voru eftir af hálfleiknum og staðan orðin 6-5.  Þarna tóku áhorfendur vel við sér og studdu Víðismenn af miklum móði enda hagur heimamanna að Víðismenn næðu sem hagstæðustu úrslitum.  Mark var dæmt af Víði skömmu síðar en þá tóku leikmenn Parnassos kipp og skoruðu þrjú mörk í röð.  Sigurður Markús Grétarsson skoraði sjötta mark Víðis úr vítaspyrnu af 10 metra færi en Víðismenn fengu fjórar þannig spyrnur í síðari hálfleik þar sem Parnassos brutu oftar en fimm sinnum af sér í hálfleiknum.  Kýpverjar bættu við tveimur mörkum undir lokin og lokastaðan 11-6.  Þetta þýddi að franska liðið þurfti að vinna sinn leik með fjögurra marka mun til að tryggja sig áframa en úrslitin úr leik þeirra lágu ekki fyrir þegar þetta var skrifað.

Keppni Víðismanna lokið að þessu sinni og þrátt fyrir að ekkert stig hafi komið í hús þá stóðu leikmenn og aðstandendur liðsins sig með miklum sóma innan vallar sem utan.  Liðið óx með hverjum leiknum en hin lliðin þrjú spila einungis Futsal allt árið um kring og var það helst reynsluleysi sem skildi liðin að.  Þessi reynsla Víðismanna mun skila sér vel í Futsal keppnum á næstu árum og skemmtilegt og krefjandi verkefni hjá félaginu að taka þátt í þessari Evrópukeppni, fyrst íslenskra liða.

www.ksi.is