Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Eva var ekki lengi í Paradís
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. nóvember 2023 kl. 06:23

Eva var ekki lengi í Paradís

Eva Rut Vilhjálmsdóttir úr Garði staldraði stutt við á hátindi Víkurfréttato(i)ppsins, hún tapaði fyrir Petru Ruth Rúnarsdóttur frá Vogum 7-8 og hefur því lokið leik. Við þökkum Evu Rut fyrir þátttökuna og þrátt fyrir að vera úr leik er hún þó í öðru sæti í heildarleiknum með sextán leiki rétta.

Petra heldur því áfram og var ákveðið að andstæðingur hennar verði Njarðvíkingurinn Hámundur Örn Helgason en hann gegnir stöðu framkvæmdastjóra UMFN. Petra var að sjálfsögðu ánægð með að halda velli og hefur ekki í hyggju að láta sætið frá sér svo glatt. „Það var góð tilfinning þegar Eva Rut taggaði mig á Instagram á laugardagskvöldið, ég vissi ekki fyrr en þá að ég hefði unnið. Ég fylgist alltaf með á laugardögum því ég er að tippa en fór svo á kótilettukvöld og gleymdi að athuga lokaleikinn. Mér líst vel á að fá Njarðvíking í leikinn, hlakka til að mæta Hámundi og ætla ekki að gefa tommu eftir. Ég tek ekki þátt í keppni án þess að ætla að vinna og stefni á að halda sætinu alla vega til 25. nóvember þegar níu vikna tímabilinu okkar lýkur og þá á ég að sjá um bakkelsið hjá okkur í Vogum. Fyrst ég klikkaði síðasta laugardag lofa ég betri frammistöðu þá og tala nú ekki um ef ég verð ennþá á stalli tippleiks Víkurfrétta,“ sagði Petra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hámundur er ánægður með að Víkurfréttir endurvöktu tippleikinn og hefur verið í sambandi við forsvarsmenn knattspyrnudeildar UMFN með að bjóða upp á getraunaþjónustu. „Ég fékk mjög góð viðbrögð hjá þeim sem stýra málum knattspyrnudeildar og þeir eru með aðila í huga til að sjá um þetta fyrir njarðvíska tippara. Það vantar bara hentuga staðsetningu. Ég heyri alls staðar hversu frábært yrði ef forsvarsmenn veitingastaðarins Brons hýsa þetta. Það yrði algert „win, win“ myndi ég segja, Brons fær gesti inn á staðinn og tipparar geta komið saman. Annars líst mér vel á slaginn gegn Petru og mun ekki gefa henni neitt eftir og stefni að sjálfsögðu á að ryðja henni úr vegi mínum. Annars er ég nýkominn heim frá London, sá leik minna manna í Tottenham á móti Chelsea og er auðvitað frekar svekktur. Er samt svekktastur út í þetta VAR-kjaftæði, ég vona að það verði hætt að nota þetta. Annars líst mér vel á mína menn, nú bara núllstillum við og höldum svo áfram. Ef við náum fjórða sæti yrði það frábær árangur sem hægt yrði að byggja ofan á,“ sagði Hámundur.

Annars er gaman frá því að segja að það sannaðist á síðasta seðli, að miði er möguleiki en þá fékk tippari tæpar sjö milljónir á enska seðlinum en hann hafði tippað í hverri viku í fimmtán ár. 

Umræddur tippari tippar hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) og hefur verið með kerfismiða upp á 141 röð í hverri viku í fimmtán ár. Einn umsjónarmanna með getraunastarfi ÍFR, Þorgeir Ingólfsson áttaði sig á hvað gæti verið í vændum. „Á laugardaginn þegar ég sá að það var ein röð með 12 réttum þegar síðasti leikur getraunaseðilsins var að hefjast, tékkaði ég á hver það var og hafði svo samband við tipparann. Hann hafði ekki verið að fylgjast með, en varð ansi spenntur þegar ég sagði honum að hann væri með 13 rétta ef Newcastle myndi vinna Arsenal. Sú varð raunin og tipparinn tæpum 7 milljónum ríkari,“ sagði Þorgeir. 

Til gamans má geta þess að kostnaður við seðilinn á þessum 15 árum er tæpar tvö þúsund krónur á viku eða rúmar 1,5 milljón króna samtals en auk stóra vinningsins hafa komið nokkrir smærri vinningar á hann í gegnum árin. Það má því segja í þessu tilfelli að þolinmæðin borgi sig.