„Erum yngri og fljótari“
Segir áhyggjulaus Teitur Örlygs fyrir leikinn gegn KR í kvöld
KR-ingar leiða 1-0 gegn Njarðvík í undanúrslitarimmu liðanna í Domino’s deild karla, en annar leikur liðanna fer fram í Njarðvík í kvöld. Síðasti leikur var epískur spennulega séð, en fallegri körfubolti hefur sést í deild þeirra bestu.
Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkur segir að nú sé kominn tími til þess að vinna á heimavelli en það hefur Njarðvíkingum ekki tekist í úrslitakeppninni til þessa. Í tapleiknum gegn KR í Vesturbænum á mánudag var sóknarleikur liðsins í molum í síðari hálfleik.
„Við erum ósáttir við margt í okkar leik frá því síðast. Við urðum smá hikandi í síðari hálfleik og það fór alveg með leikinn hjá okkur. Við höfum verið að vinna í því síðan. Við viljum sýna enn meiri ákafa sóknarlega, ekki bara varnarlega,“ segir Teitur.
„Við létum KR ýta okkur út með harðri vörn og grimmd. Það vantar smá sjálfstraust hjá okkur að rjúka bara framhjá þeim, því við höldum því fram að við séum fljótari en þeir. Þannig að þetta er spurning um hugarfar.“ Fyrir utan Hauk Helga og Atkinson þá voru flestir Njarðvíkingar langt frá sínu besta. Logi Gunnarsson er enn að glíma við handarbrot en Teitur segir hann afar mikilvægan liðinu.
Þeir eru ekkert að yngjast þessir strákar, við erum með mun yngra lið sem ég held að komi okkur til góða þegar líður á seríuna
„Það angrar Loga auðvitað að hafa plötu í hendinni og því er hann enn að finna skotið sitt. Hann var hundfúll eftir síðasta leik eins og margir af okkar mönnum. Við fengum mest út úr Hauk og Atkinson en aðrir voru sársvekktir út í sig með frammistöðuna og vita að þeir geta gert miklu betur. Menn hafa þó komið sterkir tilbaka þegar þetta hefur gerst. Þannig að við förum áhyggjulausir inn í kvöldið.“
Hvað varðar KR-ingana þá á Teitur ekki von á öðru en þeir spili sinn leik. „Ég býst ekki við neinu nýju frá KR-ingum. Þeir hafa bara spilað eins í nokkur ár og það hefur verið þeirra styrkur. Þeir eru ekkert að yngjast þessir strákar, við erum með mun yngra lið sem ég held að komi okkur til góða þegar líður á seríuna. Það er ekkert að koma á óvart þannig séð. Þetta er bara járn í járn og svo sjáum við bara hvort liðið verður sterkara.“