Erum vitanlega svekktir
Sigurbergur Elísson um leik kvöldsins
Sigurbergur Elísson leikmaður Keflavíkur var að vonum svekktur í leikslok þegar Keflvíkingar misstu niður unnin leik á síðustu mínútum leiksins gegn Breiðablik í kvöld.
Jafntefli staðreynd í kvöld eftir að hafa fengið jöfnunarmark í andlitið á lokasekúndunum. Menn eru væntanlega mjög svekktir með þessi úrslit?
Já, að sjálfsögðu erum við virkilega svekktir með það, þeir jafna með lokaspyrnunni í leiknum og tilfinningin eftir leik var eins og við höfðum tapað leiknum.
Hvernig fannst þér leikurinn spilast svona heilt yfir?
Mér fannst við spila þennan leik þokkalega vel og margt gekk upp sem við lögðum upp með. Við náðum hinsvegar ekki að beita skyndisóknunum í fyrri hálfleik eins og við vildum og áttum erfitt með að halda boltanum innan liðsins. Við vorum þéttir fyrir og vörðumst vel en svo slökknar á okkur þarna í lokin og okkur er refsað fyrir það.
Þú skorar flott mark úr aukaspyrnu, gerirðu ekki tilkall til þess að vera aukaspyrnusérfræðingur liðsins í næstu leikjum?
Já alltaf gaman að skora og langt síðan að maður setti mark úr aukaspyrnu. Við erum með marga góða spyrnumenn í liðinu og það verður bara rætt okkar á milli hver á að fá að taka hvaða spyrnu.
Hvað finnst þér liðið þurfa að laga í sínum leik til að komast á sigurbraut?
Það er margt sem er búið að vera gott og margt sem hefur verið ekki nógu gott, við ræðum það bara innan hópsins á morgun hvað má laga og við bætum úr því. Erum komnir á blað og þá þyrstir okkur ennþá meira í fleiri stig.
Þið gerið nokkrar breytingar fyrir leikinn í kvöld, fannst þér þær hagræðingar hafa jákvæð áhrif á leik liðsins?
Það var náttúrulega hrikalega gott að fá Hólmar aftur inn í liðið. Kristján veit hvað hann syngur þegar hann setur upp liðið fyrir leiki og maður treystir því, mér fannst leikmennirnir sem komu inn eða spiluðu nýjar stöður í kvöld leysa þetta mjög vel.
1 stig eftir 3 fyrstu leiki sumarsins. Það er væntanlega ekki sú uppskera sem liðið ætlaði sér. Hvernig var andrúmsloftið í klefanum eftir leik?
Nei við ætluðum okkur að gera betur í byrjun, vorum óheppnir í dag en það þýðir ekkert að hengja haus, það er leikur aftur á miðvikudaginn. Við erum komnir á blað sem er jákvætt þannig að það er bara að fara bæta í. Við vorum vissulega svekktir eftir leikinn því þessi 3 stig voru rétt fyrir framan nefið á okkur en við hittumst aftur á morgun og byrjum bara að einbeita okkur að næsta leik.