Erum hungraðir í titil
Magnús Þorsteinsson er að spila sinn þriðja bikarúrslitaleik
Sóknarmaðurinn Magnús Þorsteinsson er að spila sinn þriðja leik til úrslita í Bikarkeppninni. Hvernig hagar hann undirbúningi fyrir svona stóra leiki?
„Ég reyni að hafa undirbúning fyrir alla leiki svipaða, en auðvitað nálgast maður svona stóra leiki öðruvísi en aðra leiki. Aðalatriðið er að halda spennustiginu niðri og njóta þess að vera kominn í stærsta leik sumarsins. Dagsformið mun ráða miklu og held ég að leikurinn verði skemmtilegur fyrir áhorfendur og leikmenn, vonandi sýnum við nógu mikil gæði og baráttu til að vinna þetta KR-lið. Við mætum allavega vel undirbúnir og hungraðir í titil. Það er frábær tilfinning að komast í þennan leik og enn skemmtilegra að vinna hann. Sumir komast aldrei í úrslit bikarsins þannig að ég bíð bara spenntur eftir að spila minn þriðja bikarúrslitaleik. Vonandi fáum við bara sem flesta á völlinn og búum til alvöru keflvíska stemningu.“