Erlendur bisnessmaður líkur Bjarna Ármanns vildi kaupa Grindavík - og fara með liðið í Meistaradeildina
Erlendur kaupsýslumaður sem þótti minna á Bjarna Ármannsson í útliti, reyndi að kaupa Grindavík síðastliðið sumar. Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar, segir frá þessu í pistli í leikskrá Grindavíkur sem kom út um helgina.
Kaupsýslumaðurinn vildi setja fullt af pening í Grindavík til að gera liðið að stórveldi og koma liðinu í Meistaradeildina.
Hann vildi taka með sér a.m.k. sjö til átta landsliðsmenn frá heimalandi sínu, hreinsa út þjálfarateymið og stærstan hlutann af leikmannahópnum, fara með liðið í þriggja mánaða æfingabúðir til Kýpur og gera liðið strax að Íslandsmeisturum.
Hér að neðan má sjá skemmtilegan pistil frá Þorsteini þar sem hann fer yfir atburðarásina síðastliðið sumar.
Smelltu hér til að skoða leikskrá Grindavíkur.
Pistill Þorsteins:
Ég ætla að segja ykkur sanna sögu. Um mitt sumarið í fyrra barst knattspyrnudeildinni tölvupóstur frá íslenskum viðskiptafræðingi sem sagðist vera með áhugasaman viðskiptajöfur erlendis frá sem hefði áhuga á því að koma inn í rekstur knattspyrnudeildarinnar.
Allar viðvörunarbjöllur glumdu strax frá upphafi en forvitnin rak okkur áfram í stjórninni. Svo fór að kaupsýslumaður frá einu Eistrasaltslandinu mætti til Grindavíkur nokkrum dögum síðar. Hann fylgdist með leik hjá Grindavík í Pepsi-deildinni og hitti okkur í stjórninni að máli á Salthúsinu. Hann var frekar unglegur, ekki orðinn þrítugur, kom vel fyrir, talaði reiðbrennandi ensku og vissi nánast allt um íslenska knattspyrnu sem skipti máli, alveg niður í 2. deild. Hann var lýgilega fróður um boltann og ljóst að hann hafði unnið sína heimavinnu. Eitt áttum við sameiginlegt en hann starfaði á sínum tíma sem íþróttafréttamaður í heimalandinu.
Hann minnti mig svolítið á Bjarna Ármannsson enda vatnsgreiddur og með allt á hreinu. Hann vatt sér beint að efninu og á þann hátt að hakan mín datt alla leið niður á gólf. Hann vildi leggja til tugi milljóna króna inn í rekstur knattspyrnudeildarinnar, taka með sér a.m.k. sjö til átta landsliðsmenn frá heimalandi sínu, hreinsa út þjálfarateymið og stærstan hlutann af leikmannahópnum, fara með liðið í þriggja mánaða æfingabúðir til Kýpur, gera liðið strax að Íslandsmeisturum og koma þannig liðinu inn í forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem stóri peningapotturinn er og stórgræða peninga!
Hann vildi sjálfur taka yfir stjórn fótboltans og reka þetta einn og gleðja alla Grindvíkinga með því að gera liðið að því sterkasta og sigursælasta á landinu! Ég hélt fyrst að kaupsýslumaðurinn í fínu jakkafötunum væri að grínast. En um mig hríslaðist veruleg ónotatilfinning þegar það rann upp fyrir mér að honum var fúlasta alvara. Ég sá að félagar mínir í stjórninni voru eitt spurningamerki í framan. Af hverju yfirtók hann bara ekki lið í Lettlandi? Hvaðan komu þessir fjármunir? Við reyndum kurteisislega að útskýra fyrir honum hvernig íslensk íþróttahreyfing er byggð upp og svona yfirtaka kæmi aldrei til greina og samrýmdist ekki íslenskum lögum og reglugerðum. Hins vegar væri hann velkominn að gerast risastór styrktaraðili knattspyrnudeildarinnar en án nokkurra skuldbindinga af hálfu félagsins!
En kaupsýslumaðurinn gafst ekki upp og sagði m.a. að hann hefði skoðað ýmsa möguleika og helst væri að yfirtaka eitthvað lítið sænskt B-deildarlið eða lítið efstu deildarlið á Íslandi því það væri stysta leiðin til að komast í Evrópukeppni. Grindavík var vænlegasti kosturinn að hans mati, félagið er í efstu deild og frekar lítið en með frábæra aðstöðu og öfluga stuðningsmenn.
ÍBV var svo næsti kostur eftir því sem fram kom. Við létum KSÍ strax vita af málinu og við vorum beðnir að fara varlega sem og við að sjálfsögðu gerðum enda héldum við að málið væri úr sögunni. En kaupsýslumaðurinn lét sér ekki segjast og kom aftur til Íslands viku síðar með drög að samningi sem við að sjálfsögðu höfnuðum og slitum viðræðunum formlega enda enginn tilgangur að teygja lopann lengur. Forvitninni var svalað. Við höfum ekki heyrt í honum síðan. Ég hef reynslu af því að íþróttafréttamenn verða ekki ríkir í sínu starfi þannig að þeir geti keypt upp heilt fótboltalið! Kannski hafði þessi maður unnið í Víkingalóttó? Eða í skafmiðaleiki? Eða tippað á 13 rétta? Varla.
Á seinni fundinum með kaupsýslumanninum kom í ljós að hann stóð ekki einn í þessu heldur var með fjársterka aðila á bak við sig sem voru tilbúnir að gera nánast hvað sem er til þess að taka yfir félagið. Nei takk, ekkert svona rugl. Ég elska mitt Grindavíkurlið eins og það er. Grindavík er liðið okkar, sem fyrirtækin í Grindavík styrkja með glæsibrag, sem fólkið í bænum styður í gegnum súrt og sætt, þar sem krakkarnir okkar æfa við topp aðstæður sem Grindavíkurbær hefur kostað af miklum myndarskap, þar sem strákarnir og stelpurnar okkar bera hróður okkar víða og auglýsa bæinn okkar í bak og fyrir, Grindavík er okkar stolt.
Við eigum aftur eftir að komast í Evrópukeppni, jafnvel í sumar. Ég er bjartsýnn á skemmtilegt boltasumar fyrir hönd meistaraflokka félagsins, bæði karla og kvenna, og allra yngri flokkanna. Sjáumst hress og kát á vellinum í sumar.
Þorsteinn Gunnarsson
formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur
Myndin að ofan er af Þorsteini með Tómasi Þorvaldssyni, einum af „alvöru“ styrktaraðilum Grindavíkur.