Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Erla Þorsteins til Grindavíkur!!
Föstudagur 7. maí 2004 kl. 22:01

Erla Þorsteins til Grindavíkur!!

Landsliðskonurnar Erla Þorsteinsdóttir og Erla Reynisdóttir munu spila með liði Grindavíkur á næstu leiktíð. Þær skrifuðu undir samninga þess efnis fyrir stundu og munu að sjálfsögðu koma til með að styrkja Grindavíkurliðið verulega, enda báðar þrautreyndar landsliðskonur og margfaldir meistarar með Keflavík.

Þær nöfnur hafa verið með sterkustu leikmönnum Keflavíkurliðsins að undanförnum árum og hafa tekið þátt í gríðarlegri velgengni liðsins sem náði hámarki síðasta vetur þegar Keflavík vann alla titla sem voru í boði.

Erla Þorsteins, sem gengdi fyrirliðastöðunni hjá Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að ástæðan fyrir félagaskiptunum væri alls ekki ósætti. „Það er viss áskorun fyrir okkur að fara til Grindavíkur eftir að hafa spilað í 10 ár með meistaraflokki Keflavíkur. Það verður auðvitað rosa skrítið að spila á móti Keflavík en þetta verður allt í góðu lagi. Við erum búnar að ræða við stjórnarfólk og stelpurnar í liðinu og þau sýna okkur mikinn skilning.“

Erla sagðist ekki hafa áhyggjur af gengi fyrrum félaga sinna. „Þær eru í toppmálum þó að við förum. Þær eru með það góða breidd og það kemur alltaf maður í manns stað. Ég er líka viss um að ungu stelpurnar hjá Keflavík geti grætt á því að fá að spila meira þegar við erum farnar.“

Grindvíkingar tilkynntu einnig að Örvar Kristjánsson hafi verið ráðinn til að þjálfa kvennaliðið næsta vetur. Örvar hefur ekki þjálfað meistaraflokk áður, en hefur nokkra reynslu af þjálfun yngri flokka hjá Njarðvík síðustu ár.

VF-myndir/Hilmar Bragi: Erla Þorsteins og Erla Reynis í leik gegn Grindavík í vetur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024