Erfitt að fylgjast með af hliðarlínunni
Fyrirliði Keflavíkur glímir við nárameiðsli
Óvíst er hvort Jónas Guðni Sævarsson, fyrirliði Keflavíkur, verði klár í slaginn þegar Keflvíkingar mæta Midtjylland í undankeppni UEFA keppninnar í knattspyrnu á fimmtudag. Jónas hefur misst út síðustu þrjá leiki með Keflavíkurliðinu sökum nárameiðsla en við myndatöku kom í ljóst að annar fótur Jónasar var töluvert styttri en hinn.
Jónas meiddist á æfingu fyrir leikinn fræga gegn Skagamönnum sem Keflvíkingar töpuðu 2-1. Þá missti Jónas einnig af 1-0 sigri Keflavíkur gegn Þrótti Reykjavík í VISA bikarnum og nú síðast fylgdist hann með af hliðarlínunni þegar Keflavík og KR gerðu 1-1 jafntefli á Keflavíkurvelli. Fyrirliðinn vonast til þess að vera orðinn klár í slaginn gegn sterku liði Midtjylland á fimmtudag en það mun ráðast á miðvikudagskvöld hvort Jónas verði leikhæfur.
„Ég hef þegar byrjað meðferð við meiðslunum og á miðvikudagskvöld verður staðan tekin á málum og ákvörðun tekin um hvort ég geti verið með eða ekki,“ sagði Jónas í samtali við Víkurféttir. „Eftir myndatöku og göngugreiningu kom í ljós að það er mikill hæðarmunur á löppunum hjá mér sem myndar tog í aðra löppina og veldur það miklu álagi á nárann.“
Jónas segir það með ólíkindum að þetta sé nú að koma í ljós þar sem hann er að verða 24 ára gamall því hann hafi áður farið í göngugreiningu þar sem hæðarmunurinn á fótum hans hefur ekki komið fram. „Vonandi er lausnin sú að leika með innlegg í öðrum skónum og þá hækka ég um einn sentimeter,“ sagði Jónas kíminn en það kemur honum þá upp í 171 sentimeter og þá er full ástæða fyrir hann til þess að láta til sín taka í teignum. „Það er búið að djóka mikið með þetta og sumir segja að ég muni hækka um heil 10% og því orðinn hættulegur í hornspyrnunum,“ sagði Jónas og ljóst að hann hefur mátt taka sinn skerf af háðsglósum vegna hæðar sinnar í gegnum tíðina. Honum til málsbót er mönnum eitthvað allt annað en hlátur í huga þegar frammistaða hans á vellinum er krufin til mergjar enda hefur Keflvíkingum nokkuð fatast flugið síðan Jónas meiddist.
Frá brotthvarfi Jónasar tapaði Keflavík 2-1 gegn ÍA, rétt marði 1-0 sigur gegn Þrótti í litlausum leik og svo gerðu Keflvíkingar 1-1 jafntefli gegn botnliði KR og augljóst að hans er sárt saknað á miðjunni.
„Það er búið að vera gríðarlega erfitt að fylgjast með af hliðarlínunni því ég hef ekki misst út leik síðan 2003. Við þurfum bara að rífa okkur upp og það er ákveðið hugarfar sem við þufum að koma í lag hjá okkur,“ sagði Jónas og ekki seinna vænna þar sem stórlið frá Danmörku er væntanlegt í heimsókn á fimmtudag.
„Kristján þjálfari er búinn að fara út og skoða Midtjylland og segir þá mjög vel spilandi og nokkuð frábrugðna Lilleström þar sem Midtjylland vill halda boltanum niðri og spila honum á meðan Lillström byggði leik sinn á kýlingum fram völlinn,“ sagði Jónas en Keflvíkingar töpuðu samanlagt 6-3 gegn Lillström í tveimur leikjum í InterToto keppninni á síðustu leiktíð.
„Danirnir eru með sterka vinnuhesta á miðjunni sem eru úti um allan völl og það væri virkilega gaman að fá að takast á við þá ef maður verður orðinn heill,“ sagði Jónas en þess má geta að bæði Nicolaj Jörgensen og Guðmundur Viðar Mete, leikmenn Keflavíkur, hafa báðir verið á mála hjá Midtjylland.